Eldurinn hefst í kvöld
Bæjarhátíðin Eldur í Húnaþingi verður formlega sett í dag með opnunarhátíð sem hefst klukkan 18:00 við Félagsheimilið á Hvammstanga. Þetta er í 16. sinn sem hátíðin er haldin og fjölmargir skemmtilegir viðburðir verða á dagskránni fyrir fólk á öllum aldri. Á opnunarhátíðinni í kvöld verður boðið upp á súpu til að næra líkamann, kjötkveðjuhátíðarbrúður og sýnisgripir verða á staðnum og tónlistarfólk kemur fram. Að því loknu mun hið margverðlaunaða danska tónlistartríó, Body Rhythm Factory, bjóða upp á sýningu fyrir alla aldurshópa. Loks mætir hljómsveitin Sérfræðingar að sunnan í Sjávarborg og spilar aðallega geðgóða hippatónlist frá gullaldarárunum í kringum 1970.
Á morgun verður margt til skemmtunar. Má þar nefna barnastund á bókasafni, Gumboot búkryþma og hljóðmálun í félagsheimilinu, grímugerð í menningarhúsi, brennó og borðtenniskeppni í íþróttamiðstöð og ekki má gleyma hverfakeppni í brunaslöngubolta þar sem fjögur hverfi takast á. Í ár verða veitt sérstök verðlaun fyrir það lið sem er með besta herópið. Keppnin hefst með skrúðgöngu frá félagsheimilinu kl 17:00.
Einnig verður haldið leynilegt táninga-tónlistarpartý þar sem táningum úr öllu landshlutanum er boðið á atburð sem táningar úr sveitarfélaginu hafa skipulagt fyrir aðra táninga. Því hefur reyndar verið ljóstrað upp að þar muni spila tveir menn; annar klæðir sig eins og amma og hinn blæs húsinu um koll. Það er sem sagt hljómsveitin Úlfur Úlfur sem verður í Ásbyrgi á Laugarbakka frá klukkan 20-22:
Um kvöldið spilar Melló Músíka í félagsheimilinu frá klukkan 20:30-22:30 og að því loknu heldur hljómsveitin Ylja stuðinu áfram á Sjávarborg fram eftir kvöldi.
Upplýsingar um dagskrá hátíðarinnar má nálgast á Facebooksíðu hennar, Eldur í Húnaþingi.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.