Bólu-Hjálmars minnst á degi íslenskra tungu
Á miðvikudaginn í næstu viku verður boðið til dagskrár um Bólu-Hjálmar í tilefni af Degi íslenskrar tungu. Það eru Skagfirski kammerkórinn, nemendur 7. bekkjar í Varmahlíðarskóla og Kór eldri borgara sem koma fram á skemmtuninni, sem verður að Löngumýri kl. 20 um kvöldið.
„Samspil Skagfirska kammerkórsins og nemenda 7. bekkjar Varmahlíðarskóla í tilefni af Degi íslenskrar tungu hófst þann 16. nóv. 2007. Öll ár síðan höfum fengið 7. bekk til liðs við okkur og alltaf verið á Löngumýri,“ segir Sigríður Sigurðardóttir, aðspurð um þessa hefð, en þetta er í tíunda skipti sem Skagfirski kammerkróinn og 7. bekkur Varmahlíðarskóla standa fyrir skemmtun á Löngumýri á þessum degi.
„Tilgangurinn með þessari samvinnu er sá að efla vitund okkar allra um þann dýrmæta arf sem íslensk tunga er og hvernig hún hljómar töluð og sungin. Þetta er semsagt í tíunda sinn sem við höldum daginn hátíðlegan með þessum hætti. Kammerkórinn velur efnið og hefur tileinkað dagskrána yfirleitt einu skáldi í senn. Fyrsta árið héldum við upp á daginn með lestri ljóða eftir Sigurð Hansen og sungum lög við ljóð hans,“ segir Sigríður.
„Árið 2008 var dagskráin tileinkuð Jóhanni Guðmundssyni frá Stapa og kallaðist hún Kynslóðirnar kveðast á og syngja saman. Þá var Kór eldri borgara með okkur og nokkru sinnum síðan og alltaf gaman þegar þau hafa tíma til þess. Boðið hefur verið upp á dagskrá um: Eyþór Stefánsson, Þorstein Erlingsson, Hallgrím Pétursson, þjóðlög, þjóðtrú og börn. Í fyrra var dagskráin tileinkuð Ólínu Jónasdóttur, skáldkonu. Nú er hún tileinkuð Bólu-Hjálmari. Krakkarnir í 7. bekk fjalla um æfi og kjör Hjálmars og kórarnir spreyta sig á textum eftir hann,“ segir hún ennfremur.
„Dagskráin er fléttuð þannig saman að lestur og söngur er til skiptis. Miðað er við að dagskráin taki um klukkutíma og svo er spjallað á eftir. Það hefur alltaf verið mjög vel mætt og góð stemning enda eru 7. bekkingar upp til hópa snillingar og framtíðin björt eftir stund með þeim,“ segir Sigríður að lokum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.