Blönduós formlegur aðili að Heilsueflandi samfélagi
Síðastliðinn föstudag gerðist Blönduósbær formlegur aðili að Heilsueflandi samfélagi þegar Valdimar O Hermannsson sveitarstjóri og Alma D. Möller landlæknir, undirrituðu samning þess efnis. Frá því segir á vef Blönduóss að meginmarkmið Heilsueflandi samfélags er að styðja samfélög í að skapa umhverfi og aðstæður sem stuðla að heilbrigðum lífsháttum, heilsu og vellíðan allra íbúa. Í slíku samfélagi er heilsa og líðan íbúa í fyrirrúmi í stefnumótun og aðgerðum á öllum sviðum.
Athöfnin fór fram í matsal Blönduskóla. Valdimar sveitarstjóri flutti stutt ávarp og krakkarnir á elstu deild leikskólans Barnabæjar ásamt nokkrum nemendum Blönduskóla úr 1.-4. bekk sungu tvö lög fyrir gesti.
Því næst var Alma D. Möller með kynningu á Heilsueflandi samfélagi. Að undirritun lokinni var boðið upp á hollar veitingar.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.