Austan Vatna valið framúrskarandi verkefni á sviði atvinnuþróunar og nýsköpunar
Í desember var kallað eftir tilnefningum til framúrskarandi verkefna á árinu 2022 á starfssvæði SSNV. Óskað var eftir tilnefningum í tveimur flokkum; verkefni á sviði atvinnuþróunar og nýsköpunar og síðan verkefni á sviði menningar. Að þessu sinni var það Austan Vatna sem fékk viðurkenningu á sviði atvinnuþróunar og nýsköpunar fyrir vinnslu á matarhandverki.
Ákvörðun var tekin á fundi stjórnar SSNV og byggð á tilnefningu íbúa um hvaða verkefni fengju viðurkenningu.
„Frumkvöðlarnir á bak við Austan Vatna eru þau Eduardo Montoya og Inga Dóra Þórarinsdóttir á Frostastöðum í Skagafirði. Austan Vatna er lítið fjölskyldurekið fyrirtæki sem framleiðir matarhandverk úr staðbundnu hráefni og tekur einnig að sér veisluþjónustu. Maturinn þeirra er innblásinn af argentískum hefðum, ferðalögum þeirra um Suður-Ameríku og íslenskum mat og matarvenjum. Lögð er mikil áhersla á gæði hráefnis og gott samstarf við bændur í nærumhverfi. Austan Vatna framleiðir allt sem hægt er frá grunni og er stöðugt að leita leiða til þess að nýta hráefnin betur,“ segir í frétt á vef SSNV en þar kemur fram að fjölmargar tilnefningar hafi borist og er íbúum á svæðinu þökkuð góð viðbrögð.
Heimild: SSNV
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.