„Alrausnarlegasta úthlutun sem við höfum nokkurn tímann séð“
Nú í vikunni munu um 700 heimili í Reykjavík og Reykjanesbæ fá matarúthlutun hjá Fjölskylduhjálp Íslands en maturinn er gjöf frá Kaupfélagi Skagfirðinga og dótturfyrirtækja KS. „Þetta er mjög stór sending matvæla sem verður dreift í Reykjavík á mánudag og þriðjudag og í Reykjanesbæ á miðvikudag og fimmtudag. Þetta verður alrausnarlegasta úthlutun sem við höfum nokkurn tímann séð,“ segir Ásgerður Jóna Flosadóttir, formaður Fjölskylduhjálpar.
Kaupfélag Skagfirðinga og dótturfyrirtæki afhentu Fjölskylduhjálp Íslands fyrir helgi rúm fjögur tonn af matvælum. Það er fyrsti hlutinn af um 40 þúsund matarskömmtum sem fyrirtækið mun afhenda hjálparstofnunum vegna matarúthlutunar fram til jóla.
Í sendingunni er mikið af fiski, kjöti og mjólkurvörum sem fyrirtækin framleiða en einnig vörur sem fyrirtækið hefur keypt til að bæta við. Haft er eftir Magnúsi Frey Jónssyni, forstöðumanns Mjólkursamlags KS, að ekki sé gaman að borða hamborgara nema hafa brauð og franskar. Fyrirtækið sjálft framleiði hamborgara og sósur en hafi keypt brauð og franskar. Þá fylgi kartöflur fiski og súpukjöti.
Ásgerður Jóna segir að vörur frá fleiri fyrirtækjum verði í jólaúthlutuninni, þegar að henni kemur, þótt vörurnar frá KS verði uppistaðan. Hún segir jafnframt að við úthlutunina verði fyllsta sóttvarnaröryggis gætt, fólk sækir um á netinu og fær svo skilaboð um hvenær ná megi í vörurnar. Allt starfsfólkið er með grímur og hanska og ætlast er til að viðskiptavinir Fjölskylduhjálparinnar fari eins að. Þegar á staðinn er komið fær fólk svo matarpakkann sinn afhentan úti við.
Heimild: Mbl.is og Fréttanetið
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.