Ætlaði í sund en endaði á að gifta sig
Á síðasta degi ársins 2022 er það skagfirska Vordísin, Sigurlaug Vordís Eysteinsdóttir, listakona, sem fær þann heiður að gera upp árið. Það er nú sannarlega engin lognmollan þegar elskuleg Sigurlaug Vordís er annars vegar og það er óhætt að fullyrða að dagskráin hennar hafi verið þéttskipuð á árinu og stefnir í svo verði einnig á því næsta.
Hver er maður ársins? Prins Póló eða Svavar Pétur Eysteinsson. Stórkostlegur tónlistamaður og fyrirmynd kærleika, þakklæti, auðmýkt og styrks. Svo verð ég að nefna Bjarna Har sem var mikill meistari og mamma mín sem ég á svo margt að þakka.
Hver var uppgötvun ársins? Air Fryerinn, heldur betur þarfatæki á hvert heimili sem ég bara hafði ekki hugmynd um að ég þyrfti nauðsynlega að eiga. Einnig að maður þarf ekki alltaf að vera 150% í öllu sem maður tekur að sér, við stjórnum ekki aðstæðum hverju sinni og stundum eru 60% okkar 150% það skiptið.
Hvað var lag ársins? Gillon gaf út plötu á árinu sem er mögnuð en ég brosi alltaf og syng hástöfum með nýja laginu K.K. Hafðu engar áhyggjur, textinn er bara algjörlega spot on.
Hvað var broslegast á árinu? Sko, ég man alveg að ég hló svakalega mikið og hátt allt árið en út af hverju get ég engan veginn munað, tími er mjög afstæður í mínum huga. Ég brosti einnig mikið móðurstoltsbrosinu yfir börnunum okkar og þakklætisbrosinu yfir fjölskyldu okkar og vinum. En ætli brandararnir hans Fúsa séu ekki það sem hefur látið mig hlægja hæst og innilegast.
Hvað er eftirminnilegast frá árinu 2022 – eða best? Fjúfff, þetta var magnað leiklistarár og mikið af tónlistarviðburðum sem ég tók þátt í, sveitrastjórnarkosningar, Drangeyjarferð, héldum fyrstu barnamenningarhátíð Norðurlands vestra - Skúnaskrall, dóttir mín, hún Emelíana Lillý, keppti fyrir hönd FNV í Söngkeppni framhaldsskólanna en heyrðu núna þann 22.12.22. Þá ákváðum við Fúsi að skreppa í sund sem endaði með giftingu – ætli það sé ekki eftirminnilegasta sundferð sem ég fór ekki í.
Varp ársins (sjónvarp/útvarp/hlaðvarp)? Sko, klárlega Tindastóll tv. Ef ég síðan horfi á sjónvarp þá vel ég þáttinn Kappsmál á RÚV eða hlusta á Hæ Hæ með Hjálmari og Helga. (Kannski smá miðaldra en samt ekki, en kannski smá ) En svo þurfum við Fúsi og Eysteinn endilega að endurvekja hlaðvarpið Allt milli himins og fjarðar, það er nefnilega skemmtilegt stöff.
Hverju viltu skella á brennuna og hvers vegna? Commentakerfinu og öllum neikvæðum ummælum.
Hvað viltu sjá gerast árið 2023? Vá það er svo ótrúlega margt. Fyrir heiminn: Að Rússland hætti stríðshernaði. Fyrir Ísland: Að kerfið okkar útrými fátækt og að heilbrigðiskerfið okkar styrkist. Fyrir Skagafjörð: Betri aðstöðu til tónlistar- og leiklistariðkunnar barna og ungmenna. Fyrir mig: Geggjaða frumsýningu á Saturday Night Fever hjá FNV ásamt geggjaðrifrumsýningu á Aladdín hjá 10. bekk Árskóla. Sjúllaða brúðkaupsferð ásamt geggjuðu sumarpartýi með vinum og fjölskyldu og áframhaldandi sköpun, söng og gleði.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.