Lífið er núna – svo sannarlega. Umsögn og myndir
Í gærkvöldi var boðað til heilmikillar skemmtidagskrár í Menningarhúsinu Miðgarði með yfirskriftinni Lífið er núna. Gestgjafar voru hjónin Jón Hallur Ingólfsson og Aðalbjörg Þ. Sigfúsdóttir og er óhætt að segja að máltækið „þröngt mega sáttir sitja“ hafi átt vel við því salurinn var smekkfullur af fólki og rúmlega það.
Strax var ljóst að fjölmennt yrði á samkomunni því salurinn var orðinn þéttsetinn klukkustund áður en dagskrá hófst. Voru allir stólar hússins dregnir fram en dugði þó ekki til þar sem fjöldi gesta gerði sér að góðu að standa allan tímann. Í stuttu máli má segja að dagskráin fór vel í viðstadda alveg frá fyrstu mínútu til þeirrar seinustu. Frábærir listamenn framkölluðu gríðarlega góða stemningu sem kallaði fram bros, tár og mikinn hlátur þeirra sem nutu. Hljómsveit hússins var skipuð þeim Stefáni R. Gíslasyni og hrynbræðrunum Margeiri og Jóhanni Friðrikssonum.
Hinn margreyndi fjölmiðlamaður og skemmtikraftur, Gísli Einarsson, gaf tóninn strax í upphafi og átti salinn skuldlausan allt til enda en hann var kynnir kvöldsins. Óhætt er að segja að Gísli kunni öll trixin í bókinni þar sem hann náði svo sannarlega að kitla hláturtaugar gesta. Þess á milli kynnti hann hvern stórsnillinginn af öðrum á svið og reið Óskar Pétursson á vaðið með laginu Hún hring minn ber sem Jón Hallur sagði svo frá að hann hafi sungið til sinnar heittelskaðrar fyrir 20 árum og átta dögum síðan í Sauðárkrókskirkju. „Og hún ber hann enn!,“ sagði hann og uppskar mikið klapp og bætti við að nú hafi hann fengið verktaka til að syngja lagið.
Í kjölfar söngatriðis Óskars komu bræður hans sem fylla kvartettinn Álftagerðisbræður og sungu af sinni alkunnu snilld. Fimmti söngvarinn bættist svo við þegar undirleikarinn, Stefán R. Gíslason ljáði þeim rödd í einu laginu og er það ekki algeng sjón.
Senuþjófur kvöldsins má segja að hafi verið hin 8 ára gamla Matthildur Ingimarsdóttir frá Flugumýri sem söng tvö lög og naut bakradda fyrrnefndra bræðra. Virkilega vel gert og áhrifarík upplifun.
Söngparið, Sigvaldi og Bergrún Sóla, stigu á svið ýmist tvö ein eða með Gunnari Rögnvaldssyni og Írisi Olgu Lúðvíksdóttur og jafnvel fleirum.
Áfram hélt veislan og nú var komið að óvæntu og afar athyglisverðu atriði en afmælisbarn dagsins og dóttir Jóns og Aðalbjargar; Kristveig, steig á svið og söng í fyrsta sinn opinberlega. Réðist hún ekki garðinn þar sem hann er lægstur og tók lagið Hringrás lífsins úr Konungi ljónanna. Virkilega fínn flutningur hjá henni og Sigvalda.
Eftir hlé fóru leikar heldur að æsast og lét Jón Hallur sjálfur sitt ekki eftir liggja. Fór hann í gervi erlenda verkamannsins, unglingsins og fleiri og söng ásamt þjáningarbróður í skemmtanabransanum til margra ára, Gunnari Rögg, og Írisi. Þar eru þau á heimavelli enda undirtektir áhorfenda eftir því.
Í lokin var frumflutt lag sem þeir feðgar, Gunnar og Sigvaldi sömdu og tileinkuðu Jóni en þeim til fulltingis sungu þær Íris og Bergrún Sóla.
Áður en dagskrá var slitið steig fjölskyldan á svið og þakkaði þann hlýhug og samkennd sem þau hafa fundið fyrir í samfélaginu. Jón Hallur var ekki alveg hættur því hann óskaði eftir því að salurinn myndi syngja með sér tvö lög sem var ósvikið gert svo ómaði um alla ganga.
Þegar Feykir hafði samband við Jón Hall í dag sagðist hann enn vera að átta sig á undirtektum gesta og var hann afskaplega þakklátur öllum þeim sem sáu sér fært að mæta. „Það er gott að eiga samfélag sem stendur með manni og maður fann það í gær. Hugmyndin var að allir myndu koma glaðir á skemmtunina og fara ennþá glaðari heim. Ég vona að fólk eigi góðar minningar frá kvöldinu,“ sagði Jón Hallur og óhætt er að fullyrða að svo verði.
Undirritaður óskar Jóni Halli og fjölskyldu alls hins besta í framtíðinni og þakkar fyrir frábæra skemmtun. Lífið er svo sannarlega núna
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.