Jólaljósin tendruð á Króknum
Það var sannkölluð aðventustemning á Sauðárkróki í dag þegar Skagfirðingar fjölmenntu á Kirkjutorgið til að fylgjast með þegar ljósin voru tendruð á jólatrénu sem er gjöf frá vinabæ Króksara í Kongsberg í Noregi.
Veðrið var eins og best verður á kosið, logn og blíða og snjóföl yfir hálkunni - sem kannski var ekki alveg nógu gott - en það er víst ekki hægt að fá að hafa bæði snjó og stofuhita. Barnakór Árskóla söng jólalög og fengu krakkarnir hjálp við flutninginn frá Magna rokkara og þá mættu jólasveinar til leiks og stigu dans í kringum jólatréð með hjálp unga fólksins og foreldra.
Verslanir og fyrirtæki voru með opið í Aðalgötunni og hægt að nálgast ýmislegt góðgæti til að hressa sig við í frostinu. Skátar buðu til að mynda kakó í húsnæði Landsbankans og Kvenfélag Sauðárkróks var með fínerí í húsi Rauða krosssins svo eitthvað sé nefnt. Margt var um manninn eins og sjá má á meðfylgjandi myndum sem ljósmyndari Feykis smellti inn á kort.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.