Fjöldi gesta á Sveitasælu um helgina - Myndir
Landbúnaðarsýningin og bændahátíðin Sveitasæla var haldin sl. laugardag í reiðhöllinni á Sauðárkróki. Fjöldi gesta lagði leið sína um svæðið og kynnti sér hvað Skagfirðingar hefðu upp á að bjóða.
Að sögn Sigurlaugar Vordísar Eysteinsdóttur, verkefnisstjóra, gekk sýningin mjög vel og líklega um fjölmennustu hátíðina til þessa. Samhliða sýningunni fór fram á keppnissvæði hestamannafélagsins Skagfirðings, Fákaflug, keppni í hestaíþróttum og gekk vel. Sigurlaug Vordís segir erfitt að nefna eitthvað eitt sem standi upp úr eftir helgina en bændamarkaður Beint frá býli hafi komi sérstaklega vel út og einnig þótti henni gaman að forsætisráðherra Íslands, Katrín Jakobsdóttir, skyldi mæta og setja hátíðina. Við setninguna var Katrínu færður fjölbreyttur varningur úr héraði sem unninn er úr skagfirsku hráefni.
Á sunnudeginum var gestum boðið að skoða nokkur býli í firðinum og segir Sigurlaug Vordís fjöldi fólks hafi nýtt sér það.
Hún segist ánægð með helgina, gestir hafi skemmt sér vel og sýnendur verið ánægðir með viðtökurnar. Sjálf vill hún koma þakklæti til allra sem komu að þessari sýningu beint og óbeint.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.