„Ég fíla ekki grænmeti, ég fíla bara nammi“
Talsvert stuð var í morgun þegar skagfirsk börn heimsóttu Nýprent og Feyki, líkt og sennilega flest fyrirtæki og verslanir á Króknum, og sungu fyrir sælgæti. Það viðraði vel á krakkana á Króknum þó reyndar virtust flest vera með bílstjóra sér til halds og trausts – enda meira en að segja það fyrir litla kroppa að standa undir öllum þessum öskudagsgjöfum.
Eins og venjulega var söngurinn mis metnaðarsamur. Sumir áttu fullt í fangi með að flytja Gamla Nóa og Alúetta. Einhverjir voru með útgáfur af vinsælasta lagi síðustu missera, B O B A, og söngvakeppnislagið nýja, Kúst og fæjó, var sömuleiðis tekið til kostanna. Einn hópur í það minnsta hafði æft nokkur lög og gat því boðið upp á val. Meðal laga sem hljómuðu voru Þegar Stebbi fór á sjóinn, Traustur vinur, Krummi svaf í klettagjá, Riddari götunnar og Gulur, rauður, grænn og blár. Einn hópur hafði breytt textanum við B O B A þannig að nú var sungið: N AM I - það er nammi. Ég fíla ekki grænmeti ég fíla bara nammi... – Snilld.
Öskudagspartí var í Árskóla eftir hádegi og krakkarnir því á harðaspretti í sinni skattheimtu fyrir hádegi.Feykir birtir vanalega myndir af þeim sem heimsækja Nýprent og hér má nú sjá myndir af flestum krökkunum sem mættu í morgun.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.