Vill að íþróttastarf liggi niðri í samkomubanni
Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ, leggur áherslu á að allt íþróttastarf eigi að liggja niðri á meðan samkomubannið er í gildi og segir á heimasíðu UMFÍ að borist hafi vísbendingar um að íþróttafólk félaga sé að stunda íþróttaæfingar úti í litlum hópum þrátt fyrir strangt samkomubann. Það finnst henni ekki til fyrirmyndar.
„Ég hreinlega undrast að fólk haldi að bannið eigi við um aðra en ekki það sjálft. Við leggjum áherslu við stjórnendur í íþróttahreyfingunni að allt íþróttastarf eigi að fella niður, bæði barna og fullorðinna, boltaíþróttir, hestaíþróttir, dans og aðrar greinar,“ segir Auður Inga.
Fram kemur í frétt UMFÍ að samkvæmt leiðbeinandi viðmiðum eigi að fella niður allt íþróttastarf barna og fullorðinna á meðan takmörkun á samkomum og skólastarfi er í gildi. Samkomubanni á að ljúka 13. apríl, annan í páskum en sóttvarnalæknir hefur gefið í skyn að viðbúið sé að takmarkanir muni vara lengur og sektargreiðslur geti legið við brotum á samkomubanni.
„Þetta samkomubann er sett til að verja líf. Ekki sækja um undanþágur. Það kemur betri tíð og sumar,“ sagði Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, en margar undanþágubeiðnir hafa borist embættinu.
Sjá nánar HÉR
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.