„Við höldum áfram að bera okkur saman við bestu liðin á landinu“

Árni Eggert þjálfar lið Tindastóls í vetur líkt og á síðasta tímabili. MYND: HJALTI ÁRNA
Árni Eggert þjálfar lið Tindastóls í vetur líkt og á síðasta tímabili. MYND: HJALTI ÁRNA

Kvennalið Tindastóls í körfubolta fór í Stykkishólm á fimmtudaginn og spilaði gegn liði heimastúlkna í Snæfelli. Leikurinn endaði 87-51 fyrir Snæfell. Þrátt fyrir mikinn mun í lokin þá spiluðu Stólastúlkur oft glimrandi flottan bolta, að sögn Árna Eggerts Harðarsonar þjálfara Tindastóls, og verður spennandi að fylgjast með þeim í vetur. 

Í liði Snæfells fór mikið fyrir Emese Vida og Iva Georgiva sem báru liðið lengstum uppi ásamt Önnu Soffíu Lárusdóttur. Í liði Tindastóls voru Marín Lind og Eva Wíum mjög áberandi en Eva gekk til liðs við Tindastól frá Þór Akureyri í sumar. Aðrar komust einnig mjög vel frá sínu.

Haiden Palmer var ekki með liði Snæfells en hún er væntanleg í vikunni. Í lið Tindastóls vantaði Telmu Ösp, sem er að ná sér af meiðslum, Berglindi Skaptadóttur, sem er að stíga upp úr veikindum, og þá vantaði Dominique Toussaint sem er væntanleg í Skagafjörðinn í vikunni frá Ameríku.

„Það var gaman að sjá þjálfara beggja liða nýta æfingaleikinn til að gefa ungum leikmönnum tækifæri en hjá Snæfell spilaði Inga Sól Hjartardóttir sinn fyrsta leik og hjá Tindastól spiluðu Anna Karen Hjartardóttir, Fanney María Stefánsdóttir og Rebekka Hólm Halldórsdóttir. Allar stigu á gólfið og verður spennandi að fylgjast með þeim á næstu árum,“ segir Árni Eggert.

Stutt í fyrstu leiki tímabilsins

Hvernig var leikur Stólastúlkna? „Það er ennþá margt sem á eftir að slípa til en við erum að taka stór skref á hverjum degi núna og að nálgast að vera tilbúin fyrir fyrsta leik. Liðið er búið að vaxa mikið núna eftir að tímabilinu lauk skyndilega og það sést vel hverjar nýttu tímann vel til að bæta sinn leik. Við höldum áfram að bera okkur saman við bestu liðin á landinu enda ætlum við að vera eitt þeirra sem fyrst. Við erum óðum að nálgast þann staðal sem þarf til að spila meðal þeirra bestu. Nú er okkar að halda áfram dugnaðinum sem þarf til að komast þangað."

Eru einhverjir æfingaleikir planaðir á næstu dögum? „Það eru nokkur lið sem hafa haft samband varðandi æfingaleiki, við eigum góða vini víða,“ segir Árni Eggert og bætir við: „Það er stutt í fyrstu leikina í deildinni en við byrjum helgina 26. og 27. september á að fá Vestra í heimsókn í tvo leiki. Dominique er væntanleg til landsins á næstu dögum og þegar við vitum betur tímarammann á sóttkvínni hjá henni þá reynum við að skipuleggja alla vega einn æfingaleik með henni."

Lið Tindastóls tekur þátt í 1. deild kvenna í vetur en að þessu sinni eru níu lið skráð til leiks en voru aðeins sjö í fyrra. Liðin sem spila í 1. deildinni eru auk Tindastóls; Stjarnan, Grindavík, Njarðvík, Ármann, ÍR, Hamar/Þór Þ., Vestri og Fjölnir b.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir