Vængstífðir ÍR-ingar stóðu ekki í vegi Stólanna
Tindastólsmenn tóku á móti liði ÍR fyrir hálf tómu Síki í gærkvöldi. Reiknað var með miklum baráttuleik en þegar til kom reyndust Breiðhyltingarnir vængstífðir en daginn fyrir leik var Kaninn þeirra, Ewan Singletary, settur í bann af aganefnd KKÍ. Eðlilega háði þetta gestunum en Stólarnir komust vel frá sínu og spiluðu lengstum vel, náðu snemma ágætu forskoti og unnu að lokum öruggan 23 stiga sigur, 99-76.
Leikurinn fór fjörlega af stað og mikið skorað. Colin Pryor var sjóðheitur fyrstu mínúturnar og hann kom liði ÍR yfir, 8-9, og var það eina skiptið sem gestirnir voru með forystuna í leiknum. Geiger svaraði með sínum fyrsta þristi af sex sem hann setti niður í leiknum og Stólarnir náðu 10-0 kafla. Þá kviknaði á Roberto Kovac í liði ÍR og gestirnir minnkuðu muninn í eitt stig þremur sekúndum fyrir lok fyrsta leikhluta. Stólarnir náðu hinsvegar sælgætissókn í kjölfarið sem endaði á 3ja stiga skoti frá Xela sem rataði beinustu leið niður um leið og flautan gall.
Kovac hóf annan leikhluta með sínum fjórða þristi í fjórum skotum en þá var ákveðið að stoppa kappann og lið ÍR í leiðinni. Stólarnir gerðu þrettán stig í röð og breyttu stöðunni úr 31-29 í 44-29 og þetta forskot voru gestirnir aldrei nálægt að brúa. Bilic, sem átti ágætan leik, setti niður þrist þegar tæp mínúta var eftir af fyrri hálfleik en Danero Thomas lagaði stöðuna fyrir ÍR. 56-41 í hálfleik.
Gestirnir náðu mest að minnka muninn í tólf stig í síðari hálfleik en Stólarnir svöruðu ávallt að bragði og héldu liði ÍR í góðri fjarlægð. Staðan var 73-59 að loknum þriðja leikhluta og átta snögg stig frá Bilic snemma í fjórða leikhluta voru nóg til að draga máttinn úr gestunum. Jaka tók síðan við af Bilic og kom muninum í 23 stig þegar rúmar þrjár mínútur voru eftir og þá var kominn tími á að gefa bekkjargenginu nokkrar mínútur.
Allir í byrjunarliði Tindastóls; Bilic, Brodnik, Geiger, Helgi og Pétur, voru með um 20 framlagspunkta í leiknum sem er ansi ánægjulegt að sjá. Stólarnir unnu frákastabaráttun 45/32 og skotnýtingin var sömuleiðis töluvert betri hjá heimamönnum, 50%/41%. Í heildina áttu Tindastólsmenn fínan leik og allir leikmenn skiluðu góðu framlagi.
Bilic var atkvæðamæstur í liði Tindastóls með 25 stig og fimm fráköst. Brodnik og Geiger gerðu 18 stig hvor, Axel var með 12 stig en kappinn setti fjóra þrista í fimm tilraunum. Þá átti Pétur fínan leik, gerði 11 stig, tók sex fráköst og átti níu stoðsendingar. Perkovic var með átta stig, Friðrik 3, Hannes 2 og Helgi Rafn 2 stig en fyrirliðinn hirti 12 fráköst í leiknum og átti sex stoðara. Í liði ÍR var Pryor stigahæstur með 21 stig, Kovac og Boyanov gerðu 15 stig hvor og Danero 14 stig og hirti sjö fráköst.
Lið Tindastóls er enn í þriðja sæti Dominos-deildarinnar, nú með 28 stig líkt og KR. Í lokaumferðinni verða strákarnir að öllum líkindum að sigra Grindavík í Grindavík til að halda sætinu því ólíklegt er að KR tapi fyrir Þór Akureyri í DHL-höllinni. Það er þó orðið pottþétt að Tindastóll endar í þriðja eða fjórða sæti og er því komið með heimaleikjarétt í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.
Svo er auðvitað spurning hvort eða hvenær lokaumferðin verður leikin og hvort úrslitakeppnin fer yfirleitt fram.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.