ULM 2021 verður haldið á Sauðárkróki
Unglingalandsmót UMFÍ, það 22. í röðinni, fer nú fram á Höfn í Hornafirði en þau hafa verið haldin frá árinu 1992 víðs vegar um landið. Í setningarræðu Hauks Valtýssonar, formanns UMFÍ, sl. föstudagskvöld var greint frá því að mótið verði haldið á Sauðárkróki eftir tvö ár.
Fyrsta Unglingalandsmót UMFÍ var haldið á Dalvík árið 1992 en næsta þar á eftir ekki fyrr en 1995 þegar það fór fram á Blönduósi. Frá árinu 2002 hafa þau hinsvegar verið haldin árlega vítt og breytt um landið og segir á heimasíðu UMFÍ að mótin hafi vaxið og sannað gildi sitt sem glæsilegar fjölskyldu- og íþróttahátíðir þar sem saman koma þúsundir barna og ungmenna ásamt fjölskyldum sínum og taka þátt í fjölbreyttri dagskrá.
„Það er sérstaklega gaman að sjá ykkur hér því Unglingalandsmót UMFÍ er eitt af stærstu og mikilvægustu forvarnarverkefnum á Íslandi. Forvarnir og bætt lýðheilsa eru eilífðarverkefni sem á að verka virkt allan ársins hring. Það er alltumlykjandi í starfi ungmennafélagshreyfingarinnar. Sýnt hefur verið fram á að heilbrigð samvera foreldra og barna er besta forvörnin enda skilar það sér í því að halda unglingum lengur frá öllum þeim vímuefnum sem í boði eru. Hvert heilbrigt ár án þess að umgangast slík efni er sigur bæði fyrir börn og foreldra,“ sagði Haukur Valtýsson, formaður UMFÍ, í setningaræðu sinni sl. föstudagskvöld. Í lok ræðu sinnar upplýsti hann að búið væri að ákveða hvar næstu Unglingalandsmót UMFÍ verði allt til ársins 2022 en að ári verður það haldið á Selfossi, árið 2021 fer það fram á Sauðárkróki og 2022 í Borgarnesi.
Unglingalandsmót hafa þrisvar áður verið haldin á Króknum, 2004, 2009 og 2014.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.