Tvöfaldur skammtur af Stólastúlkum í kvöld

Stuðningsfólk Tindastóls gæti lent í smá veseni í kvöld þegar ákveða þarf hvar skal koma sínum Stólarassi fyrir á höfuðborgarsvæðinu. Ástæðan er sú að Stólastúlkur verða bæði í eldlínunni í Bestu deild kvenna í knattspyrnu á Samsung-vellinum í Garðabæ en í Austurbergi í Breiðholti Reykjavíkur spila körfuboltastelpurnar þriðja leikinn í einvígi sínu við lið Aþenu um sæti í Subway-deildinni.

Staðan í einvígi körfuboltaliðanna er 1-1 og því ekki spurning að góður stuðningur við Stólastúlkur gæti orðið gulls ígildi. Leikurinn hefst kl. 19:15. Fyrsta leikinn vann lið Aþenu með miklum yfirburðum en þá settu meiðsli lykilmanna Stólastúlkna strik í reikning gestanna. Þrátt fyrir að lið Tindastóls hefði ávallt verið skrefinu á undan í leik 2 og daðrað við að stinga lið Aþenu af náðu gestirnir að halda spennu í leiknum allt fram á lokasekúndurnar. Stólastúlkur lönduðu hinsvegar sigrinum og jöfnuðu einvígið.

„Stelpurnar hafa verið frábærar í vetur! Við hvetjum ykkur öll til þess að mæta í Austurberg í kvöld og hvetja stelpurnar áfram og halda uppi góðri stemmingu eins og okkur einum er lagið,“ segir á síðu Körfuknattleiksdeildar Tindastóls á Facebook. Miða má nálgast á Stubbi.

Þá spilar knattspyrnulið Tindastóls við Stjörnuna en sá leikur hefst kl. 18:00. Fótboltastelpurnar þurfa ekki síður stuðning en þær í körfunni eftir að hafa lotið í gras í fyrstu tveimur leikjum tímabilsins. Stig gegn Stjörnunni væru því vel þegin.

Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir