Tjaldið fellur – Dramaleikur í Síkinu
Það var spennuþrunginn dagur í gær í Skagafirði og mikil eftirvænting fyrir lokaleik Tindastóls og Þórs Þorlákshöfn í átta liða úrslitum Dominosdeildar. Síkið þétt skipað stuðningsmönnum Stóla og Þórsarar áttu einnig sína menn. Liðin komu vel stemmd til leiks og Stólar greinilega tilbúnir að bæta því við sem vantað hafði upp á í leik þeirra tvo leiki þar á undan.
Jafnræði var með liðunum fyrstu mínútur leiksins en Stólar með frumkvæðið og líklegir til alls. Liðið virtist klárt í slaginn og leit vel út og hélt forystunni nær allan fjórðunginn. Staðan eftir fyrsta leikhluta 23-18 Stólum í vil.
Sama var uppi á teningnum í upphafi annars leikhluta, menn sýndu hörku og héldu Kinu Rochford í hæfilegri fjarlægð frá körfunni og létu hann finna fyrir sér en hann hafði leikið Stólana grátt í fyrri leikjum. En eftir aðeins þrjár mínútur urðu Stólar fyrir miklu áfalli þegar Pétur Birgir Rúnarsson, sem stýrt hefur Tindastólsliðinu eins og herforingi í vetur, var rekinn út úr húsi fyrir að fara inn á völlinn, en þá átti hann að hvíla beinin á tréverkinu. Atvikið átti sér stað eftir að brotið var á Friðriki Þór og einhverjar stympingar urðu í kjölfarið. Dómarar leiksins ákváðu að skoða atvikið betur á upptöku sem leiddi til þessarar niðurstöðu.
Þá var ekki um annað að ræða en að aðrir tækju við stjórninni af Pétri og tókst það alveg ágætlega. Þarna leiddi Tindastóll með átta stigum 29-21 og átti eftir að auka forskotið enn frekar. Staðan í hálfleik 52-35 og Stólar mun líklegri til afreka en gestirnir og greinilegt að brottrekstur Péturs hafði hleypt illu blóði í leikmenn sem unnu leikhlutann með 29 stigum gegn 17.
Nú voru takmörk sett eins og segir í ljóðinu og þriðji leikhlutinn var eign heimamanna. Með hörku, seiglu og góðum leik, bæði í sókn og vörn jókst munurinn enn frekar og var farinn að sleikja tuttugu stigin. Leikgleði og harka og Stólarnir með pálmann í höndunum er fjórði leikhluti hófst og staðan 77-61. Með áframhaldandi leik væru Stólar allan daginn að fara áfram.
En fljótt skipast veður í lofti og Þórsarar gáfu ekki upp alla von. Strax í upphafi leikhlutans setti Emil Karel Einarsson þrjú stig fyrir gestina, Stólar ná ekki að svara og fá ásig tvö stig í viðbót og Kino bætti svo einu stigi við úr víti og munurinn kominn niður í tíu stig og aftur orðinn leikur hjá Þórsurum. Sá munur hélst fram yfir miðjan leikhluta en þá hurfu allar dísir á braut hjá Stólum og Þórsarar náðu að minnka muninn niður í fimm stig þegar tvær og hálf mínúta voru eftir. Á einhvern ótrúlegan hátt ná Stólar ekki að setja boltann í körfuna næstu þrjár og hálfa mínútuna og munurinn tætist niður úr 90-79 í 90-89 og mínúta til leiksloka. Þegar hálf mínúta lifði leiks hafði hvort lið bætt þristum á stigatöfluna og spennan í algleymingi. Þegar níu sekúndur eru eftir tekur Martin leikhlé en Stólar áttu að byrja með bolta við miðlínu. Eftir tvær tilraunir til að koma bolta í leik og jafnmargar villur gesta klúðrast þriðja innkastið og Þórsarar ná boltanum og bruna fram, skora og vinna leikinn 93-94.
Sárgrætilegur endir hjá Stólum sem greinilega ætluðu að gera góða hluti í þessum mikilvæga leik en því miður náðu ekki að klára. Þar með er rússíbanareið Tindastóls lokið þetta tímabil en óhætt er að segja að mikið sé búið að ganga á í vetur. Velgengni, þar sem stólar tróna á toppi deildarinnar um áramót, niðursveifla með meiðsli lykilmanna og óskiljanlegum mannakaupum og svo uppgangi allt fram í úrslitakeppni sem endar svo í niðurgangi.
Ekki er hægt að segja annað en Dominosdeildin hafi verið æsispennandi og jöfn sem sýnir að liðið sem endaði í 5. sæti deildarkeppninnar, KR, er komið með heimavallarrétt í fjórðungsúrslitum gegn Þór, sem endaði í 6. sæti. Hin viðureign fjórðungsúrslitanna er rimma Stjörnunnar sem varð deildarmeistari og ÍR sem endaði í 7. sæti.
Þá er ekkert annað að gera en klára að fylgjast með úrslitakeppninni og hefja svo undirbúning fyrir annan skemmtilegan körfuboltavetur næsta haust.
Takk fyrir Tindastóll, takk fyrir stjórnarmenn og takk fyrir stuðningsfólk.
Hér fyrir neðan má sjá síðustu spilamínútuna í leiknum. Rétt er að vara viðkvæma við því að horfa allt til enda.
Posted by Páll Friðriksson on Mánudagur, 1. apríl 2019
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.