Tíu Norðvestlendingar á verðlaunapall á Stórmót ÍR í frjálsum
Hátt í 30 keppendur af Norðurlandi vestra tóku þátt í Stórmóti ÍR um helgina en tæplega 600 skráðu sig til leiks í hinum ýmsu keppnisgreinum. Mjög góður árangur náðist í mörgum greinum og mikið um persónulegar bætingar þó svo að keppnistímabilið sé rétt að hefjast en þær voru 468 talsins, eftir því sem kemur fram á heimasíðu ÍR. Tugur keppenda af Norðurlandi vestra komst á verðlaunapall.
FH vann til flestra verðlauna á mótinu, eða 62 talsins, Ármann var í öðru sæti með 46 verðlaun og ÍR í því þriðja með 42.
Alls voru sex keppendur skráðir frá UMSS. Ísak Óli Traustason gerði sér lítið fyrir og sigraði í tveimur greinum, 60 metra grind með tímann 8,42 og í stangarstökki 4,35 m sem er persónuleg bæting.
Andrea Maya Chirikadzi bætti einnig sinn persónulega árangur í kúluvarpi stúlkna 16 til 17 ára og landaði 1. sætinu með kast upp á 11,55 m.
Félagi þeirra, Sveinbjörn Óli Svavarsson, var einnig í stuði og bætti sinn persónulega árangur með sprettum upp á 22,96 sekúndur í 200 metra hlaupi karla, annars vegar, sem færði honum 2. sætið og hins vegar 60 metra hlaupi 7,13 sekúndur og 3. sætið hans.
Ragna Vigdís Vésteinsdóttir endaði í 3. sæti í 60 metra grind á tímanum 9,53 og Rúnar Ingi Stefánsson náði einnig bronsi er hann varpaði kúlu 12,18 metra í karlaflokki og bætti sinn persónuleg árangur.
Fimm keppendur komu frá Umf. Kormáki í Húnaþingi og náðu góðum árangri.
Bragi Hólmar Guðmundsson, 11 ára sigraði í 600 metra hlaupi pilta á tímanum 1:58,41 og silfrið var hans í 60 metra hlaupi, 9,28 sekúndur.
Saga Ísey Þorsteinsdóttir 12 ára stökk sig upp í 1. sæti í hástökk stúlkna 1,35 m sem er persónuleg bæting og náði 2. sæti í kúluvarpi með kast upp á 8,20 m, einnig Pb.
Ingunn Elsa Apel Ingadóttir komst tvisvar á pall er hún krækti sér í silfur í 800 metra hlaupi stúlkna - 16 til 17 ára, á tímanum 3:00,67 sem er hennar besti árangur á árinu. Þá endaði hún í 3. sæti í 60 metra grind stúlkna á 11,05 sekúndum.
Keppendur frá USAH fjölmenntu á mótið en alls voru 15 skráningar úr Austursýslunni.
Ísól Katla Róbertsdóttir krækti í gullið í 800 metra hlaupi stúlkna 16 til 17 ára á tímanum 2:58,00, rúmum tveimur sekúndum á undan Elsu Apel úr Kormáki.
Unnur Borg Ólafsdóttir, 14 ára, náði 2. sætinu í langstökki stúlkna með stökk upp á 4,42 metra.
Öll úrslit mótsins er hægt að nálgast HÉR
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.