Tindastólssigur á Selfossi

Jaka Brodnik var drjúgur í kvöld. MYND: HJALTI ÁRNA
Jaka Brodnik var drjúgur í kvöld. MYND: HJALTI ÁRNA

Lið Tindastóls sótti Selfoss heim í 32 liða úrslitum Geysis-bikarsins í kvöld. Lið heimamanna leikur í 1. deildinni og hafa unnið einn leik en tapað þremur. Eftir jafnan fyrsta leikhluta náðu Stólarnir yfirhöndinni í öðrum leikhluta og sigurinn í raun aldrei í hættu eftir það þó svo að Selfyssingar hafi bitið frá sér. Lokatölur voru 68-83 og lið Tindastóls því komið áfram.

Selfyssingar voru sprækir í fyrsta leikhluta og voru yfir að honum loknum, 18-15. Pétur, Hannes og Bilic breyttu stöðunni í 18-24 í byrjun annars leikhluta og þessi sprettur dugði til því Selfyssingar náðu aldrei að jafna eða komast yfir eftir þetta. Jaka Brodnik fór mikinn þegar leið á fjórðunginn og staðan í hálfleik 34-46. Í síðari hálfleik var munurinn á liðunum yfirleitt þetta 10-16 stig og sigurinn öruggur.

Jaka Brodnik var stigahæstur með 25 stig í liði Tindastóls, Bilic var með 17 stig og Simmons 12. Selfyssingar höfðu á að skipa fjórum erlendum leikmönnum og stigahæstir þeirra voru Kristijan Vladovl með 20 stig og Chris Cunningham sem gerði 17 stig og tók 20 fráköst. Næsti leikur Tindastóls er gegn KR í DHL-höllinni næstkomandi föstudagskvöld en að sjálfsögðu hvíldu KR-ingar í þessari umferð bikarsins.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir