Þrenna frá Luke Rae tryggði þrjú stig

Luke Rae í góðu færi eftir að hafa leikið vörn gestanna illa. MYND: ÓAB
Luke Rae í góðu færi eftir að hafa leikið vörn gestanna illa. MYND: ÓAB

Karlalið Tindastóls mætti Elliða á Króknum í kvöld en þeir eru nokkurs konar b-lið Fylkis. Stólarnir fengur fljúgandi start en Luke Rae skilaði þrennu í hús á fyrsta hálftímanum. Leikurinn var þó jafn og spennandi en 3-1 sigur var þó sanngjarn þegar upp var staðið en lið Tindastóls fékk fín færi til að gulltryggja sigurinn í síðari hálfleik.

Það var kuldaboli á Króknum í kvöld og hvimleið norðangola. Það truflaði ekki Luke Rae sem gerði fyrsta mark sitt á 5. mínútu eftir sendingu frá Jóhanni Daða. Leikurinn var opinn og hressilegur og bæði lið voru að skapa sér færi. Luke bætti við öðru marki sínu eftir að Benni lagði boltann snyrtilega inn fyrir vörn gestanna á 23. mínútu. Þriðja mark hans kom á 28. mínútu eftir gott spil Stólanna inni á vítateig gestanna og allt stefndi í þægilegan sigur. Gestirnir klóruðu hins vegar í bakkann fimm mínútum síðar eftir laglegt spil og þeir fengu færi til að minnka muninn frekar fyrir hlé en brást bogalistin.

Atli Dagur þurfti að vera á tánum í marki Tindastóls fyrstu mínútur síðari hálfleiks en síðan náðu heimamenn yfirhöndinni þegar gestirnir reyndu að færa sig framar og sköpuðu sér ágæt tækifæri. Jónas Aron, Benni og Luke fengu nógu góð færi til að gera út um leikinn á meðan Elliðar hömuðust en sköpuðu sér lítið. Hiti færðist í leikinn eftir því sem lokamínúturnar nálguðust og gestirnir sáu stigin ganga sér úr greipum. Þeir fengu gott færi á 90. mínútu en Atli varði glæsilega í marki Tindastóls. Ágætur dómari leiksins sá sig síðan tilneyddan til að taka suddalegt spjaldasóló í lokin en öll voru spjöldin þó í gula litnum. Gestirnir töpuðu leiknum en höfðu betur í spjaldasöfnuninni. 

Þetta var sterkur sigur á ágætu fótboltaliði Árbæinga og með sigrinum komst lið Tindastóls í annað sæti 3. deildar. Luke Rae var hreint magnaður að þessu sinni og lék vörn gestanna grátt hvað eftir annað. Það var eiginlega með ólíkindum að hann næði ekki að refsa þeim í síðari hálfleiknum. Í fyrri hálfleik voru Stólarnir að tapa boltanum inni á miðjunni, þó sérstaklega Isaac  Afriyie, og það skapaði hættu en það gekk betur að passa upp á boltann í síðari hálfleik og var barátta Tindastólsliðsins til mikillar fyrirmyndar. 

Næsti leikur Tindastóls er gegn liði Augnabliks í Kópavogi en mánudag í verslunarmannahelgi kemur lið KV í heimsókn á Krókinn. Áfram TIndastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir