Þórsarar lagði í háspennuleik í 1. deild körfuboltans

Sigurreyfar Stólastúlkur, ásamt Jan Bezica þjálfara, að leik loknum sl. laugardag. Mynd af FB-síðu körfuknattleiksdeildar Tindastóls.
Sigurreyfar Stólastúlkur, ásamt Jan Bezica þjálfara, að leik loknum sl. laugardag. Mynd af FB-síðu körfuknattleiksdeildar Tindastóls.

Stólastúlkur áttu góðan leik sl. laugardag er þær mættu nágrönnum sínum frá Akureyri í 1. deild kvenna í körfubolta á heimavelli og nældu sér í montréttinn yfir Norðurlandi um. Leikurinn var spennandi frá upphafi til enda og um hörkuleik að ræða og myndaðist sannkölluð sigurstemning hjá þeim rúmlega 200 áhorfendum sem létu sig ekki vanta á pallana.

Gestirnir skoruðu fyrstu stigin strax á 7. sekúndu og voru komnir í þriggja stiga forustu þegar Stólar settu sitt fyrsta á töfluna eftir liðlega tvær mínútur. Þórsarar leiddu lungann úr fyrsta leikhluta og voru með sjö stiga forystu þegar þrjár mínútur voru eftir 8-15 en þá sögðu Stólastúlkur stopp og söxuðu á forskot Þórs jafnt og þétt og áður en yfir lauk höfðu okkar stelpur náð að jafna 17 – 17.

Í upphafi annars leikhluta skiptust liðin á forystu en gestirnir náðu þó yfirhöndinni eftir tveggja mínútna leik allt þar til gestgjafarnir jöfnuðu um hann miðjan 26 – 26. Þá var sett í fluggírinn og náðu Stólar að bæta 14 stigum við meðan Þórsarar settu einungis fjögur í viðbót og staðan því 40 – 30 í hálfleik.

Það forskot sem heimastúlkur höfðu náð hélt áfram fram í miðjan leikhlutann en þá náðu Akureyringar að klóra í bakkann og rétta sinn hlut að nokkru en ekki nóg til að jafna.

Staðan 50 - 46 fyrir Skagfirðingum áður en lokaleikhluti hófst. Akureyringar gerði allt til að rétta sinn hlut og gerðu harða hríð að stöllum sínu vestan Tröllaskaga en hvernig sem reynt var héldu stelpurnar í Tindastól forustunni allt til enda og lönduðu glæsilegum sigri 70 – 59.

Madison Anne Sutton var óstöðvandi sem fyrr en hún skoraði nær helming stiga heimastúlkna eða alls 34 stig, tók 18 fráköst og fiskaði 13 villur sem gaf henni 39 framlagspunkta. Næst kom Ingigerður Sól Hjartardóttir, sem nýlega gekk í raðir Tindastóls, með 12 stig. Inga Sólveig Sigurðardóttir var drjúg í fráköstunum, tók 13 alls og endaði með 20 framlagspunkta. 
Í liði gestanna var fyrrum leikmaður Tindastóls Eva Wium Elíasdóttir stigahæst með 19 stig og Karen Lind Helgadóttir kom næst með 16.

Tindastóll situr sem fyrr í 8. sæti en nú með 12 stig eftir 14 leiki en Þórsarar verma 4. sætið með 18 stig, átta stigum á eftir Ármanni sem trónir á toppi 1. deildar með 26 stig.

Næsti leikur Tindastóls er gegn KR þriðjudaginn 22. febrúar í Síkinu á Króknum og þá er eins gott að mæta og styðja við sitt lið en með sigri geta Stólar jafnað KR að stigum þ.e.a.s. tapi Vesturbæingar gegn Stjörnunni nú á miðvikudaginn.

Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir