Þórsarar heimsækja Tindastólsmenn í kvöld
Í kvöld fer fram heil umferð í Dominos-deildinni í körfubolta. Tindastólsmenn leika annan heimaleik sinn á þremur dögum en í kvöld eru það Þórsarar úr Þorlákshöfn sem koma í heimsókn. Það má búast við hörkuleik en lið Tindastóls er í öðru sæti deildarinnar með 26 stig en Þórsarar í því fjórða með 20 stig. Með sigri í kvöld myndu Stólarnir tryggja sér heimaleikjarétt í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.
Tindastólsmenn vöktu verðskuldaða athygli eftir sigurinn á Stjörnunni í síðustu umferð og var Viðar Ágústsson valinn lykilmaður umferðarinnar á Karfan.is eftir stórgóðan leik. Nú verða menn engu að síður að halda sér á jörðinni því Þórsarar, með Tobin Carberry í fantaformi, verða engin lömb að leika sér við. Eftir að hafa tapað fyrir KR í úrslitum Maltbikarsins og tap gegn Stjörnunni í framhaldinu, þá komust Þórsarar aftur á sigurbraut sl. sunnudag þegar þeir lögðu nafna sína frá Akureyri í hörkuleik.
Eftir leikina í kvöld er vikufrí í Dominos-deildinni en síðan verða þrjár síðustu umferðir deildarkeppninnar spilaðar á einni viku. Mætum jákvæð í Síkið í kvöld og styðjum Stólana til sigurs!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.