Tapleikir gegn Grindvíkingum

Eva Rún á fullri ferð í leik gegn Grindavík í byrjun desember. MYND: HJALTI ÁRNA
Eva Rún á fullri ferð í leik gegn Grindavík í byrjun desember. MYND: HJALTI ÁRNA

Kvennalið Tindastóls í körfunni spilaði tvo leiki við Grindavík-b um helgina og fóru báðir leikirnir fram í Mustad-höll Grindvíkinga. Stólastúlkur unnu báða heimaleiki sína gegn Suðurnesjastúlkunum hér heima en nú fór á annan veg því stelpurnar töpuðu í tvígang og hafa nú tapað sex leikjum í röð í 1. deildinni. Það munaði talsvert um að reynsluboltinn Petrúnella Skúladóttir var í liði heimastúlkna en hún skoraði grimmt og hirti fjölda frákasta.

Fyrri leikurinn fór fram á laugardag og þar voru Stólastúlkur að gera ágætlega. Lið Grindavíkur var átta stigum yfir í hálfleik, 33-25, en Tindastóll sigraði þriðja leikhlutann með sjö stiga mun og því munaði aðeins einu stigi fyrir lokafjórðunginn. Grindavík hóf fjórða leikhlutann betur en Hera Sigrún minnkaði muninn á ný í eitt stig með þristi. Næstu sex stig voru heimastúlkna en þegar þrjár og hálf mínúta var eftir af leiknum var staðan 60-53. Þristur frá Marínu Lind og tvö víti frá Evu Rún minnkaði muninn í tvö stig, 60-58, en heimastúlkur reyndist sterkari í lokin og sigruðu 70-60. Petrúnella var með 23 stig og 16 fráköst í liði Grindavíkur en Tess skilaði 20 stigum og sjö fráköstum fyrir Tindastól. Þá var Eva Rún með 13 stig og sjö fráköst og Marín Lind 14 stig og fimm fráköst.

Á sunnudag mættust liðin að nýju og Stólastúlkur virtust bara ansi ferskar eftir nótt á Reykjanesinu. Þær fengu fljúgandi start og þristur frá Marínu Lind kom þeim sex stigum yfir, 11-17, en þá kviknaði á heimastúlkum sem gerðu næstu níu stig og þær voru síðan þremur stigum yfir að loknum fyrsta leikhluta. Tess kom Tindastólsliðinu yfir á ný um miðjan annan leikhluta og Karen Lind kom Stólastúlkum fjórum stigum yfir með þristi, 37-41, þegar stutt var í hlé. Heimastúlkur, með Petrúnellu í broddi fylkingar, jöfnuðu og staðan í hálfleik 41-41. Grindvíkurstúlkur hófu þriðja leikhluta af krafti, náðu strax yfirhöndinni og þær leiddu að loknum þriðja leikhluta, 66-52, og þær gerðu síðan fyrstu körfu fjórða leikhluta. Körfur frá Marínu Lind og Telmu Ösp minnkuðu muninn í níu stig og það virtist einhver von í þessu fyrir lið Tindastól. Því fór fjarri því Grindavík náði í kjölfarið 17-0 kafla og sigruðu að lokum 90-65. Tess var stigahæst með 18 stig og Marín Lind gerði 16 stig. Temla Ösp var best Stólastúlkna að þessu sinni með 11 stig og átta fráköst. Í liði Grindavíkur var Petrúnella með 21 stig og 15 fráköst.

Þetta var sjötti tapleikur Tindastóls í röð og fjórir af næstu fimm leikjum liðsins eru á útivelli. Þann 8. febrúar mæta Stólastúlkur liði ÍR í Breiðholtinu og þá þurfa stelpurnar að hitta á toppleik. Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir