Sveitir GSS stóðu sig vel á Íslandsmóti golfklúbba
Um helgina fór fram keppni í karla- og kvennaflokki í Íslandsmóti golfklúbba. Sveitir GSS stóðu sig mjög vel í keppni við sterkar sveitir. Kvennasveitin varð í 6. sæti í efstu deild og karlasveitin í 6. sæti í annarri deild. Til að setja árangurinn í samhengi þá er rétt að geta þess að golf er næst vinsælasta íþrótt landsins meðal fullorðinna. Tugir þúsunda eru skráðir í golfklúbba og bestu einstaklingar hvers klúbbs keppa að jafnaði fyrir hönd hans á Íslandsmótinu.
Konurnar kepptu á móti þeim bestu
Íslandsmót golfklúbba 2020, 1. deild kvenna var haldin á Urriðavelli (Golfklúbburinn Oddur) og Leirdalsvelli (Golfklúbbur Kópavogs- og Garðabæjar) 23.-25. júlí.
Kvennasveit GSS varð í 6. sæti í efstu deild og keppir í þeirri deild að ári liðnu.
Sveit GSS skipuðu: Anna Karen Hjartardóttir, Árný Lilja Árnadóttir, Dagbjört Rós Hermundsdóttir, Hildur Heba Einarsdóttir, Rebekka Helena Róbertsdóttir, Sigríður Elín Þórðardóttir, Telma Ösp Einarsdóttir og Una Karen Guðmundsdóttir.
Í riðlakeppninni tapaði GSS fyrir GR (Reykjavík) 5/0 og GK (Keilir) 4,5/0,5, en unnu GO (Oddur) í spennandi viðureign með 3 vinningum gegn 2, þar sem úrslit réðust á lokaholunum. Eftir riðlakeppnina lék liðið um 5.-8. sæti. Þar vann GSS lið GV (Vestmanneyjar) í öðrum spennandi leik, en 3 leikir enduðu á 18. holu, úrslit 4/1 fyrir GSS. Lokaleikur mótsins var gegn GS (Suðurnes), sem endaði með jafntefli en þar sem GS hafði fleiri stig úr öðrum viðureignum var lokastaðan 6. sæti 1. deildar og heldur kvennasveit GSS sæti sínu í efstu deild að ári. Íslandsmeistarar golfklúbba 2020 eru GR eftir úrslitaleik við GK.
Nú var Íslandsmótið í kvennaflokki sérstakt að því leyti að fremstu atvinnukylfingar landsins tóku flestir þátt enda liggur mótahald út í hinum stóra heimi niðri af alkunnum ástæðum. Einnig eru í mörgum af stærri klúbbunum margar stúlkur sem stunda golf samhliða námi í Bandaríkjunum og eru því nokkurs konar hálfatvinnumenn í íþróttinni.
Í því félagi sem vann titilinn í kvennaflokki, Golfklúbbi Reykjavíkur, eru um 3200 félagsmenn. Sú sveit var leidd af Ólafíu Þórunni Jónsdóttur atvinnukylfingi. Í Golfklúbbnum Keili eru um 1300 félagsmenn og þar á meðal Íslandsmeistarinn Guðrún Brá Björgvinsdóttir. Í Golfklúbbi Garðabæjar og Kópavogs eru um 2000 félagar en þær urðu í þriðja sæti og Mosfellingar voru í fjórða sæti en þar eru um 1200 félagsmenn. Sú sveit sem varð jöfn Skagfirðingum var sveit Suðurnesjamanna með um 700 félaga, Golfklúbburinn Oddur í Garðabæ með um 1600 félagsmenn og Vestmannaeyingar sem státa af ríflega 400 félögum urðu fyrir neðan GSS. Til samanburðar eru nú ríflega 200 félagar í GSS.
Í sveitakeppni í golfi keppa hverju sinni sex einstaklingar og verður því að vera mikill breidd í þeim liðum sem keppa hverju sinni. GSS hefur á að skipa mjög ungu liði með tvo reynslubolta en sex ungar stelpur. Í liðinu eru einungis konur sem búsettar eru á Sauðárkróki en sum önnur liðanna voru styrkt með brottfluttum kylfingum og er árangurinn því eftirtektarverðari. Það verður spennandi að fylgjast með kylfingum í GSS á komandi árum og árangurinn ber starfi klúbbsins gott vitni.
Karlasveit GSS hélt sæti sínu í annarri deild
Íslandsmót golfklúbba í 2.deild karla var haldið hjá Golfklúbbnum Leyni á Akranesi 24.-26.júlí og var karlasveit GSS meðal keppenda. Strákarnir stóðu sig með mikilli prýði í þeirri sterku deild, urðu í 6. sæti af átta sveitum og héldu því örugglega sæti sínu í deildinni sem er frábær árangur. Fyrirfram var búist við að róðurinn yrði þungur enda keppti sveitin í þriðju deild á síðasta ári og mikill styrkleikamunur á deildunum. Sveitina skipuðu þeir Arnar Geir Hjartarson, Atli Freyr Rafnsson, Hákon Ingi Rafnsson, Hlynur Freyr Einarsson, Ingvi Þór Óskarsson og Jóhann Örn Bjarkason. Liðsstjóri var Hjörtur Geirmundsson.
Riðlakeppnin byrjaði með leik á móti GOS (Selfoss) á föstudeginum. Atli Freyr og Hlynur Freyr spiluðu fjórmenning, en tvímenning, Arnar Geir, Hákon Ingi , Ingvi Þór og Jóhann Örn. Þessi uppstilling hélst hjá okkur í öllum leikjum. Þessum leik tapaði GSS með 4 vinningum gegn 1. Arnar Geir sigraði sinn leik. Eftir hádegið á föstudag var síðan leikið við NK (Nesklúbbur) og sá leikur var mun jafnari en fyrsti leikurinn en tapaðist að endingu með 3.5 vinningum gegn 1.5. Jóhann Örn sigraði sinn leik og Arnar Geir gerði jafntefli.
Á laugardaginn var byrjað á að keppa við GO (Golfkl. Oddur). Þar varð einnig um hörku viðureign að ræða þar sem Oddur hafði að lokum betur með 3 vinningum gegn 2. Hákon Ingi og Ingvi Þór unnu sínar viðureignir. Eftir þetta var ljóst að GSS myndi fara í riðil þar sem leikið yrði um sæti 5-8 og myndi ekki taka með sér neinn sigur þangað. Eftir hádegi var síðan leikið við GKB (Golfkl. Kiðjaberg) Þar var góður gír á mannskapnum og GSS sigraði með 3 vinningum gegn 2. Atli Freyr og Hlynur Freyr sigruðu í fjórmenningi og Ingvi Þór og Jóhann Örn sigruðu í sínum leikjum. Það var því ljóst eftir þetta að við myndum mæta GH (Húsavík) í hreinum úrslitaleik um hvort liðið myndi tryggja sér áframhaldandi veru í 2. deild. Það var mjög fljótlega ljóst að sveit GSS ætlaði að selja sig dýrt í þessum leik og mjög snemma sigraði Hákon Ingi í sínum leik. Fljótlega fylgdi Ingvi Þór í kjölfarið og sigraði sinn leik. Arnar Geir kláraði síðan sinn leik skömmu síðar. Fjórmenningur Atla Freys og Hlyns Freys endaði með jafntefli á 18. holu og Jóhann Örn tapaði sínum leik á 18. holu þar lokapútt beggja keppenda réði úrslitum. Þetta þýddi 3.5 vinningar gegn 1.5 vinningi og ljóst var að vera GSS í 2. deild var þar með tryggð. Úrslit í öðrum leikjum urðu þess svo valdandi að við enduðum í 6. sæti. GOS sigraði hins vegar í 2. deild eftir úrslitaleik við NK.
Er óhætt að óska félögum í GSS til hamingju með þennan glæsilega árangur hjá bæði karla- og kvennaliðum félagsins.
/Fréttatilkynning
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.