Súrt tap á þorranum í Subway deildinni
Stólarnir þurftu að láta í minni pokann þegar þeir öttu kappi við Breiðablik í Smáranum í Kópavogi í gærkvöldi í Subway deild karla. Eftir jafnan leik í fyrri hálfleik náðu gestgjafar tíu stiga forystu sem þeir létu ekki af hendi það sem lifði leiks og unnu með 107 stigum gegn 98.
Þrátt fyrir góða baráttu Tindastóls má segja að varnarvinnan og tapaðir boltar hafi ráðið úrslitum leiksins. Þetta er áhyggjuefni fyrir framhaldið og kemur á óvart þar sem mikið var lagt upp úr vörninni strax í upphafi tímabils. „Þurfum að hætta að fá á okkur 100 stig í leik,“ sagði Baldur Þór, þjálfari Stóla í viðtali við Karfan.is eftir leikinn í gær og Pétur Ingvarsson, þjálfari Breiðabliks, var einnig tekinn í viðtal og minntist á varnarleikinn: „Þeir eru ekki góðir varnarlega, eiga erfitt með að halda mönnum fyrir framan sig og eru seinir og við nýttum okkur það.”
Eftir leikinn er Tindastóll í 7. sæti deildarinnar með 14 stig meðan ÍR, Breiðablik og KR raða sér í næstu sæti fyrir neðan með 12 stig og ljóst að nú þarf að hysja upp um sig sokkana ætli liðið í úrslitakeppnina. Næsti leikur er gegn Njarðvík á fimmtudaginn og þá þurfa stuðningsmenn að fjölmenna í Síkið og leggja sitt að mörkum í baráttunni. Áfram Tindastóll!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.