Stólarnir mæta liði Selfoss í Geysisbikarnum
Dregið var í 32-liða úrslit Geysis-bikarsins í körfubolta nú í vikunni. Lið Tindastóls þarf að bregða undir sig betri fætinum og tölta suður á Selfoss en þeir sunnanmenn eru með lið í 1. deild og það er hann Chris okkar Caird sem stjórnar liði Selfoss.
Leikirnir í 32-liða úrslitunum fara fram dagana 2.-4. nóvember en ekki er búið að geirnegla hvenær leikirnir verða spilaðir. Þá er nú gaman að geta þess að 26 lið skráðu sig til leiks í Geysis-bikarinn. Sex lið af þessum 26 sitja hjá í hinum svokölluðu 32-liða úrslitum og því fara fram tíu leikir í umferðinni. Í næstu umferð verða því 16 lið eftir í pottinum og því hægt að draga í fullskipuð 16-liða úrslit. Eða þannig.
Þau sex lið sem sitja hjá að þessu sinni eru Fjölnir, Ármann, Valur, KR, Stjarnan og Vestri. Aðeins ein rimma verður á milli liða í úrvalsdeildinni en þar taka lærisveinar Israel Martin í Haukum á móti fyrrum lærisveinum Baldurs Þórs í liði Þórs Þorlákshafnar.
Stelpurnar hefja leik í 16 liða úrslitum og því ekki dregið í þau fyrr en 32-liða úrslitum karla er lokið. Þá er rétt að minna á að í kvöld verða Stólarnir í Njarðvík og spila við heimamenn í 2. umferð Dominos-deildar karla. Leikurinn hefst kl. 20:15. Áfram Tindastóll!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.