Stólarnir kváðu afturgengna Fjölnismenn í kútinn

„Ef þú ætlar að koma til leiks með hangandi haus, þá taparðu. Það er bara þannig sem deildin virkar,“ sagði Baldur Þór, þjálfari Tindastóls, að leik loknum. MYND: HJALTI ÁRNA
„Ef þú ætlar að koma til leiks með hangandi haus, þá taparðu. Það er bara þannig sem deildin virkar,“ sagði Baldur Þór, þjálfari Tindastóls, að leik loknum. MYND: HJALTI ÁRNA

Tindastólsmenn hittu Fjölnismenn fyrir í Grafarvoginum reykvíska í kvöld í áttundu umferð Dominos-deildarinnar. Stólarnir spiluðu glimrandi góðan bolta í fyrri hálfleik og voru 22 stigum yfir í hálfleik en lið Fjölnis gekk af göflunum í þriðja leikhluta og lék gesti sína grátt. Heimamenn minnkuðu muninn í tvö stig í upphafi fjórða leikhluta en þá náðu vígreifir Stólar vopnum sínum á ný og fögnuðu að lokum næsta öruggum sigri. Lokatölur voru 88-100 fyrir piltana prúðu að norðan.

Leikurinn fór fjörlega af stað og komust heimamenn, sem aðeins hafa dregið tvö stig í búr það sem af er leiktíðar, í sex núll en þá beit Bilic okkar á jaxlinn og bruddi ótt og títt í fyrri hálfleik. Hann fór á kostum og var nánast sama hverju hann kastaði í loftið, því laust niður í körfuna. Fjölnismenn gáfu lítt eftir fyrr en vel var liðið á fyrsta leikhluta en þá var það Axel Kára sem kom kallaður og gerði gauragang í vörn og sókn. Staðan að loknum fyrsta leikhluta var 24-33. Lið Fjölnis hékk í faldi Stóla framan af öðrum leikhluta  og munurinn jafnan þetta sex til tíu stig. Síðustu þrjár mínútur fyrri hálfleiks reyndust Fjölnismönnum þrautin þyngri því Bilic lék á alsoddi og ekki var það til að bæta gæfulausan hag Grafarvogspilta að Simmons setti tvö þrautgóða þrista á lokamínútunni. Staðan í hálfleik 41-63.

Það hefur á stundum verið vísir á vondan þriðja leikhluta að hafa byggt upp búsældarlegt forskot fyrir hlé. Bæði fellur liðið sem betur stendur að vígi í þá gryfju að slaka um of á og síðan kemur sár andstæðingurinn sem óður væri til leiks. Sú varð raunin í kvöld því lið Fjölnis sveiflaði fram ákafri svæðisvörn á meðan Stólarnir stauluðust um á hælunum, taktlausir og staðir. Skot Stólanna voru vond en heimamenn hömruðu járnið meðan það var heitt, allt féll með þeim og Viktor Lee Moses fór mikinn. Hann minnkaði muninn í þrjú stig, 68-71, þegar 40 sekúndur voru eftir af þriðja leikhluta en Hannes Már setti niður eitt þríhyrnt kvikyndi frá Hvammstanga – sem var í raun risastórt.

Díselvélin droppaði í gang

Róbert Sig lagaði stöðu Fjölnis þó strax í 70-74 fyrir lok þriðja leikhluta, sem heimamenn unnu 29-11, og Stojanovic minnkaði muninn í tvö stig í byrjun þess fjórða. Þá loks droppaði gamla díselvélin í gang. Viðar og Hannes settu niður sinn hvorn þristinn og þegar loks Jaka Brodnik braut af sér hlekkina og fór að raða niður, þá náði lið Tindastóls yfirhöndinni á ný og sigldi sigrinum nokkuð örugglega í höfn. Mestur varð munurinn 16 stig þegar Stólarnir náðu 13-0 syrpu, breyttu stöðunni úr 80-83 í 80-96. Þá var líka dagskránni lokið í Dalhúsi.

Sinisa Bilic var á köflum stórkostlegur í leiknum og þá sérstaklega í fyrri hálfleik þegar hann gerði 22 stig. Hann gerði alls 27 stig og tók átta fráköst. Jaka Brodnik endaði með 19 stig og tíu fráköst og þar af gerði hann ellefu stig í fjórða leikhluta þegar mesta á reyndi. Simmons er brokkgengur en hann átti fínan fyrri hálfleik og gerði þá öll 17 stig sínum í leiknum en fann bara alls ekki fjölina fögru í þeim síðari.  Pétur var að venju drjúgur með 12 stig, sex fráköst og sex stoðara og þá gerði Axel tíu stig á sínum glimrandi kafla í fyrri hálfleik, hann hirti líka sjö fráköst og þar af fjögur í sókninni. Þá skilaði Hannes Ingi sex stigum, Viðar var með fimm og Helgi Rafn 4. Stólarnir léku án Jasmin Petrovic sem ku vera með brotinn fingur og óljóst hvenær hann mætir aftur til leiks.

Í liði Fjölnis var Moses lang atkvæðamestur með 36 stig og níu fráköst, Róbert var með 14 stig, Stojanovic 13 og Cucica 12. 

Næsti leikur Tindastóls er hér heima 28. nóvember en þá koma Þórsarar frá Þorlákshöfn í heimsókn. Þórsarar hafa verið sprækir það sem af er tímabili, hafa þegar þetta er skrifað unnið fjóra leiki og tapað þremur. Stólarnir eiga hins vegar harma að hefna frá í vor þannig að það verður örugglega hart tekist á. Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir