Stólarnir komnir með Þórsliðið upp að vegg

Leikmenn og stuðningsmenn Tindastóls sem fjölmenntu í Icelandic Glacial höllinni í Þorlákshöfn fagna góðum sigri saman í leikslok. MYND: HÓLMFRÍÐUR SVEINS
Leikmenn og stuðningsmenn Tindastóls sem fjölmenntu í Icelandic Glacial höllinni í Þorlákshöfn fagna góðum sigri saman í leikslok. MYND: HÓLMFRÍÐUR SVEINS

Lið Tindastóls og Þórs mættust í Þorlákshöfn í kvöld í öðrum leik liðanna í átta liða úrslitum Dominos-deildarinnar. Reiknað var með hörkuleik en það voru mestmegnis leikmenn Tindastóls sem gáfu heimamönnum hörkuleik og unnu frábæran fjórtán stiga sigur og náðu því 2-0 forystu í einvígi liðanna. Lokatölur voru 73-87 og spennt Síkið bíður liðanna á fimmtudagskvöldið.

Leikmenn Tindastóls komu sprellandi sprækir til leiks og voru ákveðnir í öllum sínum aðgerðum á meðan að Þórsarar virkuðu óákveðnir með grillarann góða, Kinu Rochford, hálf lemstraðan á bekknum. Þeir gátu ekki leyft sér að geyma hann lengi þar því Stólarnir náðu strax undirtökunum og þegar fimm og hálf mínúta var liðin setti Pétur þrist og staðan orðin 6-16.  Munurinn jókst fram til loka fyrsta leikhluta en Friðrik gerði fimm síðustu stig Stólanna í leikhlutanum og staðan 13-28. Það var ljóst að Israel Martin og félagar höfðu stoppað í varnargötin síðan í fyrsta leik og Tomsick, sem gerði 39 stig í Síkinu í fyrsta leik liðanna, var ekki hleypt í einhvern stjörnuleik á ný. Við þetta riðlaðist talsvert leikur heimamanna sem náðu þó að laga varnarleik sinn í öðrum leikhluta þannig að Þórsarar náðu aðeins að saxa á forskot Tindastóls. Staðan í hálfleik var 32-43.

Stemningin í liði Tindastóls var til fyrirmyndar, allir létu finna vel fyrir sér í vörninni og voru áræðnir í sókn. Lið Þórs náði sínum besta leikkafla undir lok þriðja leikhluta og náði að minnka muninn úr 43-55, þegar fjórar mínútur voru eftir, niður í þrjú stig, 53-56, þegar mínúta var eftir af þriðja leikhluta. Axel Kára gerði þrjú síðustu stig leikhlutans en Þórsarar minnkuðu muninn í þrjú strax í byrjun fjórða leikhluta. Menn voru því farnir að setja sig í spennutreyjuna (!) fyrir lokamínúturnar en það reyndist óþarfi því tankurinn virtist hafa tæmst hjá heimamönnum við að vinna niður forskotið og leikmenn Tindastóls fóru að setja skotin sín niður á ný. Þristar frá Viðari og Dino komu muninum í níu stig og síðustu mínúturnar reyndust Stólunum ansi þægilegar. Viðar bætti við tveimur þristum og Hannes Ingi sendi heimamönnum langt nef með því að setja þrist, spjaldið og niður. 

Tölfræði á vef KKÍ >

„Það er mjög vel gert að koma á þenn­an erfiða úti­völl og taka sig­ur,“ sagði Pét­ur Rún­ar Birg­is­son í sam­tali við mbl.is eft­ir sig­ur liðsins gegn Þór í kvöld. „Við ætluðum að rota þá í upp­hafi leiks, ná af­ger­andi for­ystu, og það tókst. Þeir hafa verið frá­bær­ir eft­ir ára­mót og eru bún­ir að vera skora í kring­um 90-95 stig en okk­ur tókst að halda þeim í 73 stig­um í kvöld sem er mjög já­kvætt. Þeir skora 105 stig í fyrsta leikn­um en í kvöld gerðum við þeim mjög erfitt fyr­ir og það sést á stiga­töfl­unni.“ Pét­ur vill ekki ganga svo langt og segja að ein­vígið sé búið að hann viður­kenn­ir að Stól­arn­ir séu komn­ir í þægi­lega stöðu. „Við þurf­um að klára þetta heima núna en þetta er akkúrat það sem við ætluðum okk­ur og við erum á pari.“

Pétur átti fínan leik og skilaði 12 stigum, fimm fráköstum og fimm stoðurum. PJ Alawoya var stigahæstur Stólanna, gerði 25 stig og hirti 16 fráköst. Danero Thomas var flottur með 16 stig og tíu fráköst. Aðrir leikmenn skiluðu sínu og vel það og liðsheildin var mögnuð í kvöld. Halldór Garðar var nánast einn um að stíga upp í liði Þórs í kvöld en aðrir sprikluðu eins og fiskar í neti Tindastóls.

Sjáumst í Síkinu – áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir