Stólarnir framreiddu flatböku fátæka mannsins í Mathús-höllinni

Arnar var stigahæstur Stólanna í gær. Hér er hann í bikarleik gegn Stjörnunni fyrr í vetur. MYND: DAVÍÐ MÁR
Arnar var stigahæstur Stólanna í gær. Hér er hann í bikarleik gegn Stjörnunni fyrr í vetur. MYND: DAVÍÐ MÁR

„Já, þetta var bara flatt og lélegt, það var einhver smá kafli þarna í öðrum leikhluta sem menn sýndu einhvern smá vilja… Þriðji leikhlutinn byrjar hérna á því að bæði lið virtust ekki vilja vinna þennan leik fyrstu 5 mínúturnar…við ákváðum að nýta ekki það tækifæri sem þar gafst og því fór sem fór,“ sagði Baldur Þór Ragnarsson, þjálfari Tindastóls, ósáttur í samtali við Körfuna.is eftir tap í Mathús Garðabæjar-höllinni í gærkvöld þar sem Raggi Nat stútaði Stólunum. Lokatölur 87-73 og þriðji tapleikur tímabilsins gegn Stjörnumönnum bitur staðreynd.

Jafnræði var með liðunum fyrstu mínúturnar en heimamenn náðu góðum kafla undir lokin og breyttu stöðunni úr 12-14 í 26-14 á tveimur mínútum. Þristar frá Zela og Sigtryggi Arnari vöktu Stólana á ný og staðan 30-21 að loknum fyrsta leikhluta. Gestirnir komu sér aftur inn í leikinn með því að gera fyrstu sex stig annars leikhluta en þristar frá Hopkins og Hilmarssyni komu Garðbæingum aftur í bílstjórasætið. Stólarnir tóku leikhlé í stöðunni 46-35 þegar tvær og hálf mínúta var til leikhlés og komu sprækir sem lækir til leiks, lokuðu körfunni og gerðu níu stig í röð þannig að aðeins munaði tveimur stigum í hálfleik. Staðan 46-44.

Það var síðan boðið upp á flatbökur fyrstu mínútur þriðja leikhluta og fátt gómsætt sem fylgdi þeim. Liðin gerðu sitt hvora körfuna fyrstu fjórar og hálfa mínútuna en það voru heimamenn sem vissu hvar áleggið var geymt á meðan Stólarnir liðu út af og vöknuðu ekki fyrr en heimamenn höfðu skóflað í sig öllu havaríinu. Eða á íslensku; Stjörnumenn kafsigldu Stólana á tíu mínútna kafla, breyttu stöðunni úr 49-46 í 77-57 á tæpum tíu mínútum, og þegar lið Tindastóls loks rumskaði var leikurinn tapaður.

Ekkert rúm fyrir rólegheit

Fjórir leikir voru spilaðir í gærkvöldi og liðin sem áttu heimaleiki höfðu öll átt undir högg að sækja í síðustu umferðum. Þau unnu öll leiki sína í gær og sýndu og sönnuðu að það getur ekkert lið mætt til leiks í öðrum gír í Subway-deildinni. Þá er þeim refsað.

Hittni heimamanna var talsvert betri en gestanna í gær, þeir hirtu 54 fráköst á meðan Stólarnir tóku 41 en á móti töpuðu Stjörnumenn boltanum 20 sinnum en Stólarnir í ellefu skipti. Stigahæstur Stólanna var Arnar með 17 stig en framlagshæstur var Thomas Massamba sem gerði 16 stig, hirti sjö fráköst og átti sex stoðsendingar. Badmus og Bess fundu sig ekki í leiknum og Siggi Þorsteins var slappur í fráköstunum en hann setti þó 14 stig á töfluna. „...það er bara eins og það er, við vorum bara ekki góðir í dag,“ sagði Baldur og það þarf ekkert að orðlengja það.

Raggi Nat reyndist Stólunum erfiður á þeim rúmu 17 mínútum sem hann spilaði; gerði 13 stig og tók átta fráköst og hafði töluverð áhrif á sóknarleik Tindastóls. Stigahæstir voru þó Turner III (23), Hopkins (16) og Gabrovsek (15).

Næst koma ÍR-ingar í Síkið föstudaginn 3. desember með Friðrik Inga í stýrishúsinu. Hann leiddi Breiðhyltinga til stórsigurs á vinum sínum í KR í gær þar sem ÍR sýndi flottan leik. Það verður því væntanlega slagur í Síkinu. Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir