Sterkur sigur Stólanna á Njarðvíkingum
Lið Tindastóls og Njarðvíkur mættust í Síkinu í gærkvöldi í fjörugum leik. Liðin voru jöfn í 3.-4. sæti Dominos-deildarinnar fyrir leikinn, bæði með 16 stig, en lið Tindastóls hafði unnið viðureign liðanna í Njarðvík í haust og gat því styrkt stöðu sína í deildinni með sigri. Stólarnir náðu yfirhöndinni strax í upphafi leiks og leiddu allan leikinn og lönduðu sterkum sigri eftir efnilegt áhlaup gestanna á lokakaflanum. Lokatölur 91-80.
Tindastólsmenn voru án Geigers sem enn var ekki kominn með leikheimild og þá var Slavisa Bilic, stigahæsti leikmaður liðsins, fjarri góðu gamni. Stólarnir töpuðu fyrsta leiknum á nýju ári í Keflavík í byrjun vikunnar og þurftu því að mæta með sparihliðina upp gegn Njarðvíkingum. Pétur og Simmons settu niður þrista í byrjun leiks og þeir áttu báðir mjög gott kvöld. Mario hélt gestunum inni í leiknum fyrstu mínúturnar en annars voru þeir að hitta illa. Stólarnir breyttu stöðunni úr 11-8 í 19-8 og síðasta orðið í fyrsta leikhluta átti Hannes og staðan 26-15.
Saga leiksins var nánast sú að Njarðvíkingar skutu illa, hirtu sóknarfráköst og héldu áfram að skjóta illa. Þeir náðu að minnka muninn í sjö stig, 35-28, þegar loks kviknaði á Chaz en Simmons svaraði með fimm stigum og Pétur og Jaka bættu við tveimur stigum hvor og Simmons átti svo lokaorðið í fyrri hálfleik með þristi og staðan í hléi 47-31 og Stólarnir í góðum málum.
Þriðji leikhluti hefur verið liði Tindastóls erfiður upp á síðkastið en það vandamál virtist úr sögunni í gær. Pétur jók forskotið í 18 stig, 51-33, en þá náðu gestirnir smá áhlaupi og Logi Gunn minnkaði muninn í 53-42 en Stólarnir svöruðu með tveimur þristum frá Jaka og Simmons. Chaz lagaði stöðuna fyrir Njarðvík en Simmons bætti þá bara við öðrum þristi og staðan 62-44 og um þrjár mínútur eftir af þriðja. Þessar mínútur notuðu gestirnir hins vegar vel og gerðu 16 stig á meðan Stólarnir gerðu tvö þannig að þegar fjórði leikhluti hófst þá munaði allt í einu aðeins fjórum stigum, staðan 64-60. Þriðja leikhluta draugurinn var því enn sprelllifandi!
Þristur frá Hannesi og íleggja frá Viðari opnuðu leikinn í fjórða leikhluta og þristur frá Pétri kom muninum upp í tíu stig. Næstu átta stig voru Njarðvíkinga og munurinn tvö stig og stuðningsmönnum Stólanna hætt að lítast á blikuna. Stólarnir gerðu næstu fjögur stig en enn á ný minnkuðu gestirnir muninn í tvö stig. Jaka setti niður laglegt skot og eftir misheppnað flotskot frá Loga setti Friðrik Þór niður gríðarlega mikilvægan þrist. Eftir mýmargar tilraunir og nokkur sóknarfráköst tókst Mario að svara með þristi en þá svaraði fyrirliðinn Helgi Rafn með spariþristi á hinum endanum, staðan 84-77, og þá var Njarðvíkingum öllum lokið og mesti mátturinn úr þeim. Lokatölur 91-80.
Leikurinn var hin ágætasta skemmtun, Tindastólsliðið var að spila vel á löngum köflum og þó einkum og sér í lagi í fyrri hálfleik. Þá var vörnin að gera ágætlega nema hvað Njarðvíkingar fengu að hirða allt of mörg sóknarfráköst, tóku 24 í leiknum á meðan þeir tóku aðeins 20 varnarfráköst, sem er sérstakt svo ekki sé meira sagt. Þeim gekk hins vegar afleitlega að setja boltann í körfuna en gestirnir tóku 81 skot í leiknum á meðan Stólarnir tóku 61. Að öllu eðlilegu ætti liðið sem tekur 14 sóknarfráköstum og 20 skotum meira en andstæðingurinn að vinna leikinn en það er víst aðalmálið að setja boltinn ofan í körfuna og þar gekk ekki sem skildi hjá gestunum.
Simmons var virkilega góður í gær, gerði 31 stig og setti niður tíu af 17 skotum sínum. Pétur var með 17 stig, sjö fráköst og sjö stoðara og þá var Jaka Brodnik sömuleiðis með 17 stig og setti niður öll sjö skotin sem hann reyndi innan 3ja stiga línunnar. Skotnýting Stólanna í leiknum var 54% en Njarðvíkingar voru með 33% nýtingu. Í liði Njarðvíkur var Mario Matasovic bestur með 27 stig og tíu fráköst, Chaz Williams skilaði 22 stigum en annars voru ansi margir Njarðvíkingar sem rötuðu sjaldan á fjölina sína. Til dæmis fann hinn ágæti Maciek Baginski ekki eina einustu smá flís í Síkinu í gær – tók átta skot og hitti engu og endaði með -6 í framlag.
Næsti leikur Tindastóls er gegn toppliði Stjörnunnar í Mathúsi Garðabæjar-höllinni næstkomandi föstudag kl. 20:15. Áfram Tindastóll!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.