Steinar Óli fulltrúi Tindastóls á afmælismót JSÍ

Verðlaunahafar í U21-60 á afmælismóti JSÍ. Steinar Óli Sigfússon er lengst til hægri. Mynd: Sigfús Ingi Sigfússon.
Verðlaunahafar í U21-60 á afmælismóti JSÍ. Steinar Óli Sigfússon er lengst til hægri. Mynd: Sigfús Ingi Sigfússon.

Laugardaginn síðasta var haldið afmælismót Júdósambands Íslands (JSÍ) í yngri flokkum sem er fyrir iðkendur frá ellefu til tuttugu ára. Tindastóll var með þrjá keppendur skráða til leiks en einungis einn skilaði sér á keppnisstað. Á heimasíðu Tindastóls segir að þeir Þorgrímur Svavar Runólfsson, Steinar Óli Sigfússon og Veigar Þór Sigurðarson hafi allir verið skráðir til leiks en vegna slæmrar færðar um morguninn komumst þeir Þorgrímur Svavar og Veigar Þór ekki á mótið og urðu að sætta sig við að sitja heima.

Steinar Óli fór hins vegar suður daginn áður og var eini fulltrúi Tindastóls á afmælismótinu, sem haldið var í húsnæði Júdófélags Reykjavíkur. Hann keppti í tveimur flokkum, U18-60 þar sem hann endaði í fjórða sæti og U21-60 þar sem hann hreppti þriðja sætið en þetta var fyrsta JSÍ mótið sem hann tekur þátt í og örugglega ekki það síðasta, eins og segir á Tindastóll.is, en hann var að keppa við sýnu keppnisreyndari andstæðinga og efldist með hverri viðureign. Alls glímdi Steinar Óli sjö glímur og náði að leggja tvo andstæðinga sína í U21 flokknum sem skilaði honum, eins og áður segir, þriðja sætinu, sem er virkilega góður árangur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir