Stærsti fótboltaleikurinn í sögu Tindastóls í kvöld
Síðasta umferðin í Inkasso-deild kvenna fer fram í kvöld og ef blaðamanni skjátlast ekki þá er þetta í fyrsta sinn í sögu Tindastóls sem meistaraflokkslið félagsins á möguleika á að tryggja sér sæti í efstu deild í lokaumferð Íslandsmótsins. Leikurinn fer fram á gervigrasinu á Króknum, hefst kl. 19:15, og eru stuðningsmenn Stólastúlkna hvattir til að fjölmenna. Frítt er á völlinn í boði Þórðar Hansen ehf.
Það þarf auðvitað eitt og annað að falla með Stólastúlkum til að draumurinn um sæti í Pepsi Max-deildinni geti orðið að veruleika. Lið Tindastóls, sem er í þriðja sæti Inkasso-deildarinnar, þarf til að byrja með að sigra lið ÍA í kvöld en á sama tíma þurfa FH-ingar að tapa fyrir Aftureldingu í Mosfellsbænum. Lið FH er með 36 stig en Tindastóll 34 og markatala Hafnfirðinga er mun betri en Stólastúlkna. Haukar, sem eru með 33 stig, eiga reyndar veikan möguleika á að riðja FH og Tindastóli úr vegi ef bæði FH og Tindastóll tapa í kvöld. Það verður því víða spenna á fótboltavöllum landsins.
Feykir hafði í morgun samband við annan þjálfara Stólastúlkna, Jón Stefán Jónsson, og spurði hvernig honum litist á leikinn. „Leikurinn leggst vel í mig. Við einbeitum okkur einvörðungu að okkar verkefni í kvöld sem er að enda tímabilið vel og vinna leikinn. ÍA liðið er gott og verkefnið erfitt, ef við spilum okkar besta leik hins vegar er ég viss um að við vinnum.“
Því næst var Jónsi spurður hvort allir leikmenn liðsins væru klárir í slaginn. „Nei, því miður eru ekki allar með, Jackie er aftur fjarverandi vegns höfuðmeiðslanna sem hún hlaut í sumar. Hún taldi sig vera orðna góða og spilaði sl. föstudag, var svo góð um helgina en fékk mikið bakslag á mánudag. Við tökum engar áhættur með þetta. Kristrún er einnig frá, hún er farin erlendis og það er mikil blóðtaka því hún hefur verið frábær í síðustu leikjum. Loks er Krista auðvitað enn frá sem og að Jóna missti út allt tímabilið nánast vegna höfuðhöggs í byrjun júní. En allar aðrar eru heldur betur klárar í slaginn og óhætt að segja að þær níu heimastelpur + tveir erlendir leikmenn sem hefja leik í kvöld munu leggja sig allar fram til að gera Tindastólsfólk stolt.“
Einhver skilaboð til stuðningsmanna Tindastóls að lokum? „Ég vona að fólk fjölmenni og njóti þessa síðasta leiks með okkur. Alveg sama hvernig fer á öðrum völlum í kvöld, ef við vinnum þá er ástæða til að gleðjast og meira að segja þó það myndi klikka líka! Tímabilið hefur verið frábært og árangurinn sennilega framar væntingum flestra. Nú er lykilatriði að standast pressuna og enda vel. Þeir sem hafa mætt á leikina okkar hingað til hafa heldur betur stutt vel við okkur og það munar svo ótrúlega um það fyrir ungt lið. Ég vil nota tækifærið og þakka fyrir stuðninginn í sumar og vona að hann nái hámarki í kvöld.“
Það er óhætt að taka undir að stelpurnar hafa heldur betur gert Tindastólsfólk stolt í sumar og flestir leikir liðsins hafa verið hin besta skemmtun, mikið skorað og allt gefið í botn. Munum að hvernig sem allt fer að þá eru Stólastúlkur búnar að ná besta árangri sem mfl. Tindastóls hafa náð í sögu félagsins og eiga því skilinn stuðning og þakklæti í kvöld. Veðurstofan ætlar að skrúfa fyrir rigninguna áður en leikurinn hefst, frítt er á leikinn sem fyrr segir í boði Þórðar Hansen ehf. og í hálfleik verður boðið upp á kaffi og köku frá Sauðárkróksbakarí. Allir á völlinn og áfram Tindastóll!
Þeir sem ekki komast á leikinn ættu að geta fylgst með á netinu en sýnt verður frá leiknum á Tindastóll TV.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.