Smábæjarleikarnir haldnir um helgina
Þrettándu Smábæjarleikar Arion banka verða haldir næstkomandi helgi, dagana 18.-19. júní, en þetta knattspyrnumót er fyrir hressa krakka í 4., 5., 6., 7. og 8 flokki, bæði stelpur og strákar. Búist er við um 1.500-1.700 manns á Blönduós um helgina.
Knattspyrnudeild Hvatar hefur haldið Smábæjarleikana síðastliðin 12 ár og hafa þeir verið hugsaðir fyrir félagslið minni bæjarfélaga úti á landi. Þó hafa stærri lið fengið að senda einstaka c, d og e liði til þátttöku. Spilað er í riðlakeppni á laugardag og sunnudag en tekið er á móti liðum á föstudag.
Alls hafa 58 lið skráð sig til leiks á mótið en það eru um 500 þátttakendur. Með foreldrum og aðstandendum má búast við að íbúafjöldinn á Blönduósi þrefaldist.
Mótið er haldið á glæsilegu vallarsvæði Hvatar sem er miðsvæðis á Blönduósi en þaðan er stutt í alla þjónustu eins og verslun, kaffihús, sundlaug og gististaði. Mótið verður sett klukkan 8:50 stundvíslega á íþróttavellinum. Margt verður til skemmtunar keppnisdagana og má þar meðan annars nefna kvöldskemmtun sem fram fer á íþróttavellinum á laugardagskvöldinu.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.