Skíðagöngunámskeið í Fljótum í mars og mót um páskana

Frá Fljótamóti 2018. Mynd: Skíðagöngumót Fljótum á Facebook
Frá Fljótamóti 2018. Mynd: Skíðagöngumót Fljótum á Facebook

Helgina 23.-24. mars ætlar Ferðafélag Fljóta að standa fyrir skíðagöngunámskeiði í Fljótum. Kennari á námskeiðinu verður Sævar Birgisson sem á að baki langan feril sem landsliðsmaður í skíðagöngu. Innifalið í námskeiðsgjaldi sem er 15.000 krónur er kennsla, fyrirlestrar og hádegisverður á laugardegi.

Á námskeiðinu verður, auk æfinga, m.a. farið yfir helstu atriði varðandi útbúnað, farið yfir tækniatriði og umhirðu á skíðum og gefnar góðar ráðleggingar. Námskeiðinu lýkur upp úr hádegi  á sunnudegi með léttri keppni. Enn eru nokkur sæti laus en áætlaður fjöldi þátttakenda er 10 manns.

Nánari upplýsingar um námskeiðið má finna í auglýsingu á Facebooksíðunni Skíðagöngumót Fljótum. Skráning á námskeiðið er á netfangið ferdafelagfljota@gmail.com.

Fljótamót 2019

Ferðafélag Fljóta mun svo að vanda standa fyrir skíðagöngumóti á föstudaginn langa sem að þessu sinni ber upp á 19. apríl. Þar verða gengnar fjölbreyttar gönguleiðir við allra hæfi, með hefðbundinni aðferð í öllum flokkum barna, unglinga og fullorðinna.

Keppt verður í 20 km göngu í karla- og kvennaflokki í aldursflokkum 16-34, 35-49, 50-59 og 60 ára og eldri. Í 5 km og 10 km göngu verður keppt í karla og kvennaflokki 16 ára og eldri. Einnig verður keppt í flokki drengja og stúlkna í vegalengdunum 5 km og 10 km á aldrinum 12-15 ára, 2,5 km fyrir 6-11 ára og 1 km fyrir 3-5 ára. Nánari upplýsingar veita Birgir Gunnarsson mótstjóri 897 3464 og Björn Z. Ásgrímsson 897 4979. 

Þátttökugjald er sem hér segir:
Börn 16 ára og yngri allar vegalengdir 1.500 kr.
5-10 km fullorðnir 3.000 kr ef skráð er fyrir 5. apríl annars 5.000 kr.
20 km fullorðnir 4.000 kr ef skráð er fyrir 5. apríl annars 6.000 kr.

Innifalið í mótsgjaldi eru veitingar að keppni lokinni í félagsheimilinu á Ketilási þar sem dregið verður í veglegu happdrætti úr rásnúmerum keppenda og fá yngri keppendur fá páskaegg að keppni lokinni. Veitingasala er í boði fyrir gesti mótsins.

Nánari upplýsingar um mótið má nálgast á Facebookviðburðinum Fljótamót 2019.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir