Silfur og brons á Íslandsmóti yngri flokka í júdó
Íslandsmót yngri flokka í júdó var haldið í Laugabóli í Reykjavík sl. laugardag. Tindastóll átti þrjá fulltrúa á mótinu af rúmlega hundrað keppendum. Mótið er venjulega það fjölmennasta ár hvert og markar lok keppnistímabilsins á Íslandi. Rúmlega hundrað keppendur mættu til leiks og keppt var í þyngdar- og aldursflokkum.
Fulltrúar Júdódeildar Tindastóls á mótinu voru að þessu sinni Haukur Rafn Sigurðsson sem keppti í U15-55, Veigar Þór Sigurðarson sem keppti í U15+90 og Þorgrímur Svavar Runólfsson sem keppti í U18+90.
Á heimasíðu Tindastóls kemur fram að Haukur Rafn hafi keppt í fimm manna riðli og lenti í fjórða sæti eftir að hafa unnið eina glímu og tapað þremur, þar af tveimur sem voru hörkuspennandi og hefðu getað lent á hvorn veginn sem var. Hann má vera sáttur með sína frammistöðu og sýndi að hann er ekkert lamb að leika sér við á keppnisgólfinu.
Veigar Þór keppti í þriggja manna riðli og varð að láta þriðja sætið sér að góðu verða eftir að hafa tapað báðum sínum viðureignum. Það er þó gaman að sjá hversu áræðinn hann er og greinilegt að góð ástundun á æfingum í vetur hefur skilað honum verulegum framförum.
Þorgrímur Svavar keppti í þriggja manna riðli og mætti ákveðinn til leiks. Honum gekk þó ekki sem skyldi í fyrri viðureign sinni og varð að láta í minni pokann eftir mikla baráttu. Seinni glíman var hins vegar hans eftir að hann náði góðu fastataki á andstæðingi sínum sem átti ekki möguleika á að losa sig.
„Í heild má segja að keppendur Júdódeildar Tindastóls hafi verið félagi sínu til sóma og geta þeir allir borið höfuðið hátt og verið stoltir af sinni frammistöðu,“ segir Einar Örn Hreinsson, júdóþjálfari.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.