Sigurður Pétur Stefánsson íþróttamaður ársins hjá USAH
Á 104. ársþingi USAH sem haldið var á Húnavöllum í gær 7. apríl var Snjólaug María Jónsdóttir kjörin nýr formaður. Tók hún við keflinu af Rúnari Aðalbirni Péturssyni. „Um leið og við bjóðum nýjan formann velkominn til starfa þökkum við Rúnari fyrir hans framlag undanfarin sex ár sem formaður USAH,“ segir á Facebooksíðu sambandsins.
Þá var íþróttamaður ársins 2021 valinn og kom í hlut Sigurðar Péturs Stefánssonar, úr skotfélaginu Markviss, en faðir hans, Stefán Ólafsson, veitti verðlaununum viðtöku á þinginu.
„Hvatningarverðlaun USAH voru veitt 3.-4. flokki kvenna í knattspyrnu hjá Hvöt, Kormáki og Fram en samstarf þeirra hefur gengið með eindæmum vel og árangur fram úr björtustu vonum. Inga Jóna Sveinsdóttir (Fram) og Sigurður Bjarni Aagnegard (Hvöt) veittu viðurkenningunni viðtöku á þinginu.
Þórey Edda Elísdóttir kom á þingið og flutti ávarp frá ÍSÍ og var henni vel tekið.
Þingið var 104. þing USAH en Héraðssambandið var stofnað 1912 og er því 110 ára. Af því tilefni var þingfulltrúum boðið upp á afmælisköku eftir að hafa þegið dásemdar súpu frá Kvenfélagi Bólstaðarhlíðarhrepps,“ segir í tilkynningu USAH en afmælinu verður fagnað betur síðar á árinu líkt og þingið lagði til.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.