Sigur á Krókinn í kvöld
Nú á dögunum dúkkaði óvænt upp nýtt stuðningsmannalag Tindastóls á alnetinu. Lagið, sem kallast Stólar, var skráð í heimili hjá Hljómsveit Baldvins I. Símonarsonar og Hólavegsdúettsins. Þeir sem á annað borð rákust á skilaboð um útgáfu lagsins hafa sennilega flestir klórað sér í höfðinu litlu nær um hverjir stæðu á bak við þetta hressilega lag. Feykir lagðist í rannsóknarvinnu og forvitnaðist um málið.
Hljómsveit Baldvins I. Símonarsonar skipa hinir brottfluttu bekkjarbræður Baldvin, gítarleikari og tæknifræðingur, sonur Símonar á Gili og Brynju Ingimars, og Héðinn, píanisti og læknir, sonur Sigga Rafveitustjóra og Önnu Rósu Skarp. Þeir félagar voru á unglingsárunum, fyrir ríflega 30 árum, í hljómsveitinni DNK [Den Norske Kreditbank] ásamt Arnari Kjartans og Jóni Oddi Þórhallssyni og hafa fiktað við músík annað veifið. Þeim til aðstoðar að þessu sinni eru Sólmundur Friðriksson, Stöðvfirðingurinn góðkunni sem spilar á bassa líkt og með Geirmundi í denn, og síðan sér Þorbergur Skagfjörð Ólafsson, Óla Begga, um trommuleik. Hólavegsdúettinn sér um söng í laginu og hann skipa Héðinn og Valgerður Erlings, Erlings Péturssonar og Sigrúnar Skúla, en þau bjuggu um tíma hvort á móti öðru á horni Hólavegar og Bárustígs á Króknum.
Feykir spurði Valgerði hver ástæðan væri fyrir útgáfu lagsins. „Ástæðan fyrir því að lagið var samið er kannski einna helst sú hvað höfundur, og já við öll, erum þakklát fyrir allt það sem samfélagið á Sauðárkróki var okkur og er enn, þó svo við höfum ekki búið þarna í tugi ára. Maður kemst að því hve mikilla forréttinda maður naut, að hafa tækifæri til þess að taka þátt í nánast öllu sem mann langaði til, en ekki það að allt hafi það skilað ætluðum árangri. Við til að mynda höfum öll keppt fyrir hönd Tindastóls í sennilega öllu sem börn gátu æft á Króknum á sínum tíma; fótbolta, körfubolta, frjálsum og sundi. Svo er líka bara svo asskoti gaman að leika sér, en þar sem við höfum ekki öll líkamlega burði í dag til að taka þátt í íþróttunum gripum við bara í það hópsport sem hentar okkur best, en það er að fá útrás í í tónlist.“
Why Not!?
„Við höfum lítið sem ekkert gert í tónlist en hefur öllum langað til þess og þá er bara að setja í kæruleysisgírinn og bara why not?“ segir Valgerður og heldur áfram. „Við erum bara að þessu til að skemmta okkur og vonandi náum við að skemmta fleirum í leiðinni. Eins og segir í auglýsingunni – Just for the fun of it – við erum aldrei of gömul til þess að leika okkur og svo gleymdist að kenna okkur að taka okkur hátíðlega í æsku og við höfum enn ekki lært það.“
Hvernig varð lagið til? „Lagið varð til eftir að pianistinn stóð í miðri þvögu á bikarleik í Laugardalnum og upplifði stemninguna með frábærum stuðningsmönnum Tindastóls. Þangað var samfélagið okkar mætt til að styðja við bakið á heimastrákum sínum, ásamt okkur brottflognu. Upplifunin var stórkostleg. Í stúkunni sameinuðumst við eins og ein stór fjölskylda og sælutilfinningin er sigurinn var í höfn er ólýsanleg. Eftir leikinn fór höfundur, sem býr sunnan heiða, heim og settist við píanóið, en hugurinn varð samferða liðinu alla leið heim á Krók, eins og fram kemur í textanum.
Og þegar við tölum um liðið þá hugsum við ekki aðeins til þeirra sem eru innan vallar. Það eru ekki síður þeir sem hafa haldið utan um magnað starf körfunnar á Króknum í fjölda ára, jafnvel tugi, í óeigingjarnri sjálfboðavinnu. Þetta er algerlega einstakt. Svo ekki sé minnst á stuðnigsaðilana sem hafa með fjárframlögum ekki aðeins stutt við leikmenn, heldur borgað rútur svo liðið njóti stuðnings. Það er ótrúlega gaman að sjá hvað krakkarnir eru duglegir að mæta á leiki og frábært að sjá þegar maður rennir í gegnum bæinn að það eru alltaf einhver börn úti að leika sér í körfu svo framtíðin virðist björt hvað körfuna varðar. Og svo eru þau líka bara svo mögnuð á áhorfendapöllunum. Þó svo að börnin okkar klæðist búningum ýmissa liða hér að sunnan, þá erum við foreldrarnir algerlega með það á hreinu fyrir hvaða félag hjartað slær.“
Það er Héðinn sem er höfundur lags og texta en lagið var tekið upp í hljóðverinu Sýrlandi og sá Gestur Sveinsson um hljóðritun. Lagið Stólar er fín viðbót í vaxandi flóru ágætra stuðningslaga Tindastóls. Flestir ættu að muna eftir fótboltalaginu Upp á topp með Tindastól sem Stjáni Gísla söng en Óskar Páll sá um vinnsluna. Það lag var fengið að láni frá Færeyjum og var til að mynda spilað á trompet á landsleik Færeyja og Möltu á dögunum. Síðan var það Áfram Stólar sem Siggi Doddi setti saman og hefur oft verið spilað á körfuboltaleikjum síðustu árin.
„Það er allavega mjög gaman hjá okkur“
Baldvin og Héðinn segjast vera búnir að leika sér eitthvað í tónlistinni. „Við fengum Sólmund Friðriks og Begga Óla til liðs við okkur og loks hana Valgerði nú á haustmánuðum og skelltum henni bara beint í studíó til að klára þetta lag. En við vitum í raun ekkert hvað við erum að brasa en það er allavega mjög gaman hjá okkur og við erum jú farin að spila sama lagið tvisvar, sum þrisvar og eitt höfum við tekið ca. sjö sinnum svo það hlýtur að vera allt í áttina. Hljómsveitarstjórinn vill taka stefnuna meira í átt að frumsömdu efni, píanistinn er funky rockabilly blúsari og söngvarinn er nánast alæta á tónlist og bara prófar eitt og annað og er alveg til í það þriðja.“
Er verið að gera myndband við lagið? „Myndbandið er í vinnslu en ekki er vitað hvenær það kemur út. Svo er verið að vinna að remix útgáfu lagsins en það hefur sennilega enginn komið með remix útgáfu af stuðningsmannalagi áður.“
En er ekki söngkonan KR-ingur? „Jú hún er KR ingur svo lengi sem Tindastóll er ekki mótherjinn,“ segir Valgerður eldhress að lokum.
Hægt er að hlýða á nýja lagið, Stólar, á Spotify og það styttist víst í að hægt verði að bæði hlusta og hlýða á það á YouTube.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.