Sætur fyrsti sigur Tindastóls í sumar
Lið Tindastóls tók á móti Vestra frá Ísafirði í 2. deildinni í knattspyrnu á vel rökum Sauðárkróksvelli í dag. Ísfirðingar voru fyrir leikinn í öðru sæti deildarinnar en Stólarnir sigurlausir með tvö stig á botninum. Það var ekki að sjá þegar flautað var til leiks og áttu heimamenn í fullu tré við vel skipað lið gestanna og á endanum fór það svo að Tindastólsmenn fögnuðu glaðbeittir fyrsta sigri sínum í sumar. Lokatölur 2-1.
Lið Tindastóls var enn án fyrirliðans, Konna, sem er meiddur og sömuleiðis er Sverrir frá eftir höfuðhöggið mikla sem hann fékk á Selfossi. Vonast er til að Konni komist á ról fyrr en síðar en óvíst er hvort Sverrir nái að komast á völlinn áður en fótboltasumrinu lýkur. Annars var lið Tindastóls skipað líkt og í síðustu leikjum nema búið var að skipta um karlinn í brúnni; Arnar Skúli tekinn við þjálfarastöðunni af Yngva.
Gestirnir virkuðu skeinuhættari framan af leik en Stólarnir voru grimmir í vörninni og gerðu vel í að reyna að halda boltanum þegar færi gafst. Það voru hins vegar gestirnir sem gerðu fyrsta markið á 15. mínútu eftir mistök í vörn Tindastóls. Leikmenn Vestra unnu boltann í vítateig Stólanna, sendu fyrir þar sem Aaron Robert Spear skoraði með hnitmiðuðu skoti. Nú reyndi á heimamenn sem höfðu í leiknum á undan þessum lagt árar í bát eftir að hafa lent undir gegn Kára. Sem betur fer kom jöfnunarmarkið fljótt og það eftir fyrstu góðu sókn Stólanna. Benni tók hornspyrnu frá vinstri, Fannar skallaði boltann og Arnar Ólafs náði að setja boltann í markið og jafna leikinn. Eftir þetta jafnaðist leikurinn og Tindastólsmönnum óx ásmegin en báðum liðum gekk þó illa að skapa sér færi. Staðan í leikhléi 1-1.
Talsvert rigndi í fyrri hálfleik en lygnt var og hlýtt á meðan á leiknum stóð. Heldur sló á rigninguna í síðari hálfleik og í kjölfar þess að Stólarnir náðu forystunni ákvað sólin að kíkja á leikinn. Mark Tindastóls átti Alvaro Cejudo Igualada nánast skuldlaust, sending inn fyrir vörn Vestra virtist hættulítil en Alvaro setti í túrbóið og náði að komast inn fyrir varnarmann gestanna og skoraði af öryggi. Kappanum hefur gengið illa upp við markið í sumar en mikið óskaplega var hann ánægður með lífið á þessum tímapunkti. Í kjölfarið elti hann alla bolta eins og óður maður og samherjar hans fylgdu með. Gestirnir reyndu að jafna leikinn en það verkefni þeirra varð erfiðara þegar Hammed Obafemi Lawai fékk að líta sitt annað gula spjald og varð því að yfirgefa samkvæmið. Þrátt fyrir þetta voru Vestrar meira með boltann en Stólarnir gáfu nánast engin færi á sér og þau sem gáfust buðu ekki upp á mikið. Síðustu mínúturnar voru spilaðar af skynsemi og þrátt fyrir talsverðan barning og örvæntingarfull tilþrif gestanna þá lönduðu Stólarnir sínum fyrsta sigri í sumar og það gegn Bjarna Jóhanns og félögum.
Lið Tindastóls náði öflugum leik í dag, mistökin voru fá og margir leikmenn stigu rækilega upp eftir hörmungarleikinn gegn Kára. Í vörninni voru Fannar og Bjarki virkilega góðri og fyrir framan þá átti Tanner sennilega sinn besta leik í sumar. Þá reyndist Benni gestunum erfiður og þurftu þeir ansi oft að stöðva kappann ólöglega. Annars skiluðu allir leikmenn sínu og nú er það bara þetta gamla góða „áfram gakk“ sem gildir. Staða Tindastóls í 2. deildinni er erfið en orustan er ekki töpuð. Áfram Tindastóll!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.