Orri og Veigar verða með U20 landsliðinu í sumar
Orri Már Svavarsson og Veigar Örn Svavarsson hafa verið valdir í 16 manna hóp U20 ára landsliðs Íslands 2024. Tvíburarnir Kolbrúnar og Svavars, fæddir 2005, hafa verið fastamenn í hópnum hjá liði Tindastóls í Subway-deildinni í vetur og fengu talsverðan spilatíma með liðinu fyrir áramót þegar hópurinn var þunnskipaðri og meiðsli plöguðu nokkra lykilleikmenn.
Eftir æfingar í febrúar í minni æfingahópum frá æfingunum í desember hafa nú verið valdir loka 16 manna landsliðshópar sem eru endanlegir fyrir sumarið, en 12 leikmenn halda á mót hvers liðs, og þar sem lið eru með tvö verkefni geta liðin breyst milli móta. Það er Pétur Már Sigurðsson sem þjálfar U20 karla en honum til aðstoðar eru Hlynur Bærings og Dino Stipcic.
Þá má geta þess að tveir leikmenn frá Þór Akureyri með tengingar í Tindastól voru valdir í U20 kvenna. Það voru þær Eva Wium sem spilaði með liði Tindastól eitt tímabil og svo Króksarinn Rebekka Hólm Halldórsdóttir sem skipti yfir í Þór síðastliðið sumar.
Valið var í landsliðshópa U15, U16, U18 drengja og stúlkna auk U20 karla og kvenna. U15 liðin fara á eitt alþjóðlegt mót í byrjun ágúst en U16-U18-U20 fara á NM og svo FIBA EM mót í sumar.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.