Opnunarhátíð í Tindastól á morgun - FRESTAÐ
Fyrirhugaðri opnunarhátíð hefur verið frestað um óákveðinn tíma vegna veðurs.
Áætlað er að vígja nýju lyftuna á skíðasvæði Tindastóls á morgun, laugardaginn 23. mars kl. 11:30, en skíðasvæðið verður opið frá kl. 10-16. Nú geisar óveður á Norðurlandi en samkvæmt spá Veðurstofunnar dregur úr vindi og úrkomu í kvöld og nótt og kólnar. Sunnan 5-10 á morgun, stöku él og hiti rétt yfir frostmarki.
Á Facebooksíðu skíðasvæðis Tindastóls segir að nýja lyftan sé kærkomin viðbót við þá aðstöðu sem í boði er á svæðinu og stækkar skíðasvæðið þar til muna. Lyftan er alls 1.045 metrar að lengd og liggur frá enda núverandi lyftu sem er í 440 metra hæð yfir sjávarmáli en nýja lyftan endar í 903 metra hæð yfir sjávarmáli. Með tilkomu nýju lyftunnar gefst skíðafólki tækifæri til þess að skíða á nýju og glæsilegu svæði með stórkostlegt útsýni fyrir augum sér og er það kærkomin viðbót við skíðasvæði Tindastóls, en í ár er 19 ára afmæli skíðasvæðisins á núverandi stað.
Fréttin var uppfærð klukkan 13:12
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.