Öflugur sigur K/H manna á Hvíta riddaranum
Á laugardaginn fékk Kormákur/Hvöt (K/H) lið Hvíta riddarans í heimsókn á Blönduósvelli. Leikurinn var gríðarlega mikilvægur fyrir Kormák/Hvöt, því að ef þeir ætluðu að eiga möguleika á sæti í úrslitakeppni 4.deildar þá urðu þeir að vinna leikinn.
Leikmenn K/H mættu af miklum krafti inn í leikinn og strax á 8.mínútu kom fyrsta mark leiksins þegar Siggi Aadnegard gaf boltann inn í teiginn og eftir smá klafs barst boltinn til markamaskínunnar Diego sem setti boltann í varnarmann og þaðan í netið. Áhorfendur þurftu ekki að bíða lengi eftir öðru marki en K/H fékk aukaspyrnu á vinstri kantinum, hana tók Sergio og kom hann með frábæra sendingu inn í teiginn þar sem Siggi Aadnegard afgreiddi boltann af mikilli fagmennsku. Alger drauma byrjun hjá K/H og staðan orðin 2-0 eftir aðeins 12.mínútur. Áfram héldu K/H að spila vel og þrátt fyrir margar góðar tilraunir kom þriðja markið ekki fyrr en á 41.mínútu þegar Siggi kom aftur með góða fyrirgjöf, þar sem marka Diego var mættur og kláraði færið snyrtilega. Svo á loka mínútu hálfleiksins kom flottasta mark leiksins, en þá byrjaði K/H með boltann í vörninni þar sem boltinn gekk manna á milli, barst inn á miðjuna þar sem var síðan skipt hratt um kant og Óskar Smári kom með hárnákvæma sendingu á Diego sem var réttur maður á réttum stað og fullkomnaði þrennuna og K/H komnir í 4-0 og þannig var staðan í hálfleik.
Í seinni hálfleik náði Hvíti Riddarinn að minnka muninn á 58.mínútu en lengra komumst þeir ekki. Lokatölur leiksins 4-1 sanngjarn og sannfærandi sigur K/H staðreynd. Liðið spilaði sinn besta leik í sumar og mjög gaman að sjá hve vel spilandi liðið er. Augljóst var að leikmenn liðsins höfðu mikla löngun til að vinna leikinn og liðsheildin var mjög sterk. Með sigrinum er K/H kominn með það í sínar hendur að komast í úrslitakeppnina en liðið á tvo leiki eftir og vinnist þeir leikir er úrslitakeppnin staðreynd.
Næsti leikur hjá K/H er á móti ÍH og verður leikurinn spilaður laugardaginn 17. ágúst klukkan 16:00 á Blönduósvelli.
Áfram K/H
/EÍG
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.