Njarðvíkingar á leiðinni á Krókinn
Lið Tindastóls og Njarðvíkur mætast að öllum líkindum í Síkinu í kvöld í 13. umferð Dominos-deildarinnar í körfubolta. Eftir því sem Feykir kemst næst þá er lið Njarðvíkinga komið langleiðina á Krókinn og dómararnir loks lagðir af stað eftir að hafa verið stopp vegna lokunar á þjóðvegi 1 í Kollafirði.
Leikurinn hefst kl. 20:15 og verður væntanlega sýndur í beinni á Stöð2Sport með hjálp snillinganna á TindastóllTV nema annað komi í ljós. Það er í það minnsta um að gera að fjölmenna bara í Síkið og styðja Stólana alla leið.
Ekki er ljóst hvort nýr leikmaður Tindastóls, Deremy Geiger, verði kominn með leikheimild en að sögn Ingólfs Jóns Geirsson, formanns körfuknattleiksdeildar Tindastóls, þá er flækjustigið ansi mikið í hans tilfelli þar sem Geiger hefur spilað í fjölda landa og þarf að nálgast sakavottorð víða að.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.