„Næstu tvö ár verða erfið“
Viðræður standa yfir við Arnar Skúla Atlason um að hann verði næsti aðstoðarþjálfari karlaliðs Tindastóls í knattspyrnu. Rangt var farið með í Feyki að búið væri að skrifað undir samninga. Að sögn Rúnars Rúnarssonar sitjandi formanns deildarinnar verður í beinu framhaldi farið í að klára að manna liðið.
„Okkur vantar töluvert upp á að fylla liðið og það er næsta verkefni. Það er því miður ekki hægt að sækja í strákana í 3. flokk þar sem þeir eiga alveg tvö ár eftir þangað til við getum farið að nota þá þó vissulega séu margir mjög efnilegir þar. Við vitum að næstu tvö ár verða erfið hvað mönnun við kemur.“ Rúnar segir að leitað verði út fyrir héraðið með leikmenn hvort sem um innlenda eða erlenda einstaklinga verður að ræða. Ekki verði borguð laun en möguleiki er á því að skaffa húsnæði og eina máltíð á dag og jafnvel hjálpað til við að finna vinnu. Aðspurður um þá heimamenn sem hafa leikið með nágrannaliðum segir Rúnar félagið ekki hafa verið að vaða í þá leikmenn. „En eins og staðan er núna þá er því miður verið að sækja í okkar leikmenn. Spurning hvort við verðum að hnykla aðeins vöðvana og svara því. Það er ömurlegt að þurfa að standa í því að þjálfarar liðanna hér í kring séu hringjandi í okkar leikmenn til þess að skipta um lið. Mér finnst það galið.“
Engar breytingar hafa orðið á stjórn deildarinnar enn fyrir utan barna og unglingaráð en það er nú vel mannað að sögn Rúnars. Hann segir að nú verði farið í það að virkja fólk meira í kringum fótboltann og bæta umgjörð fyrir leiki í sumar. „Það á við í bæði karla- og kvennaleikjunum og einnig aðhald um yngri flokka, fá fólk til að koma og vera með. Það verður stór þáttur því hver hönd skiptir máli.“
Frétt uppfærð kl: 8:50.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.