Murielle og María Dögg með þrennur
Tindastólsstúlkur tóku á móti liði Fjölnis úr Grafarvogi á KS-teppinu á Króknum í gærkvöldi. Yfirburðir heimastúlknanna voru miklir í leiknum, þær fengu mýgrút af færum og nýttu sjö þeirra en Murielle Tiernan og María Dögg Jóhannesdóttir gerðu báðar hat-trick. Með sigrinum fóru Stólastúlkur á topp Lengjudeildarinnar, eru með 16 stig eftir sex leiki en lið Keflavíkur á leik inni.
Það varð fljótlega ljóst í hvað stefndi í kvöldblíðunni á Króknum. Mur og Aldís María fóru mikinn í sókninni og inni á miðjunni stjórnaði Jackie ferðinni en gestunum gekk hálf brösuglega að komast að einhverju ráði inn á vallarhelming Tindastóls. Fyrsta mark leiksins gerði Jackie Altshculd úr víti á 16. mínútu eftir að Aldís María átti flottan sprett af vinstri kantinum og var tekin niður í teignum. Murielle, sem hefur verið í meiðslaveseni allt tímabilið, gerði tvö mörk, á 24. og 38. mínútu, og staðan 3-0 í hálfleik.
Gestirnir áttu sinn besta kafla í leiknum fyrstu tíu mínútur síðari hálfleik án þess þó að raska ró Amber Michel í marki Tindastóls. Hún þurfti líklega ekki að verja eitt einasta skot í leiknum en varð að vera á varðbergi í fáeinum fyrirgjöfum. Þjálfarateymi Tindastóls hafði gert fimm breytingar á liðinu áður en fjórða markið leit loks dagsins ljós en það gerði María Dögg og hún bætti við tveimur mörkum áður en yfir lauk, gerði þrennu á þrettán mínútna kafla og sennilega flest eftir góðan undirbúning Laufeyjar Hörpu sem var færð úr bakverðinum upp á vinstri kantinn á lokakaflanum og gerði mikinn usla í vörn Fjölnis. Það var síðan Mur sem rak smiðshöggið á kvöldverk Stólastúlkna þegar hún potaði boltanum í mark gestanna á lokasekúndunum.
Frábær sigur og flottur leikur hjá liði Tindastóls sem lék í heildina vel. Stundum lá leikmönnum þó helst til of mikið á að klára sóknirnar í fyrri hálfleik og spilið því stundum ónákvæmt. Mur fann skotskóna á ný en það segir nú sína sögu þegar fólk hefur áhyggjur af markaþurrð á þeim bænum en hún er komin með fimm mörk í sex leikjum í sumar. Þá var María Dögg alsæl með sína þrennu en hún hefur verið nær því að ógna umferð um Skagfirðingabrautina en marki andstæðinganna það sem af er sumri.
Þrjár stúlkur að yfirgefa liðið
Aldís María, Jackie og Laufey áttu flottan leik og sem fyrr stigu Bryndís og Hallgerður vart feilspor í vörninni. Það tvíeyki hefur verið óaðfinnanlegt það sem af er sumri en Hallgerður, sem kom að láni frá Val, lék í gær sinn síðasta leik fyrir Tindastól í sumar en hún er, líkt og Anna Margrét Hörpudóttir og Lara Margrét Jónsdóttir, að fara til Bandaríkjanna í háskóla/fótbolta.
Jón Stefán þjálfari segir að það sé hrikalega vont að missa Hallgerði en hún hefur unnið sína varnarvinnu einbeitt en sallaróleg og verið afar skynsöm í sínum leik. „Sú hefur staðið sig algjörlega frábærlega í sumar og missirinn mikill. Við stefnum á að styrkja hópinn já en við getum ekki gert það fyrr en 5. ágúst. Þær Anna Margrét og Lara eru líka að fara í næstu viku svo það eru ansi stór skörð höggvin í hópinn,“ segir Jónsi. „Nú verðum við bara að treysta á að sú sem tekur stöðu Hallgerðar í miðri vörninni muni gera það af myndarskap. Við teljum okkur hafa breidd í hópnum til að afgreiða þessi skakkaföll þar til glugginn opnar en það er alveg ljóst að lið sem missir 3-4 leikmenn út úr hópnum þarf að bregðast við því.“
Næsti leikur Tindastóls er nk. þriðjudag á Ásvöllum þar sem lið Hauka bíður toppliðsins. Áætlað er að sá leikur verði sýndur á Stöð2Sport og má fullyrða að þetta sé í fyrsta skipti sem knattspyrnuleikur með Tindastóli er sýndur beint í sjónvarpi. Áfram Tindastóll!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.