Miklar fréttir frá kvennaboltanum – María skrifar undir hjá Stólum, nýr markmaður og Jónsi í þjálfarateymið
María Dögg Jóhannesdóttir hefur skrifað undir nýjan samning við knattspyrnudeild Tindastóls sem eru góðar fréttir en sögur höfðu heyrst að hún ætlaði að söðla um og reyna fyrir sér annars staðar. Þá hefur markmaðurinn Amber Michel einnig skrifað undir samning en hún kemur frá San Diego.
Samningurinn við Maríu er til eins árs og segir Guðni Þór Einarsson, þjálfari liðsins, það mikið ánægjuefni að María, sem var eftirsótt af nokkrum liðum m.a. í efstu deild, hafi ákveðið að taka slaginn með uppeldisfélaginu í sumar.
„Hún hefur þrátt fyrir að vera kornung, fædd 2001, nú þegar spilað 68 leiki fyrir Tindastól í hinum ýmsu mótum á vegum KSÍ og skorað í þeim níu mörk. Fyrsta leik sinn spilaði María sumarið 2016. Hún er afar fjölhæfur leikmaður sem getur leyst flestar stöður á vellinum en nýtur sín þó best á miðjunni. Hún var þó oft notuð á kantinum sl. sumar með góðum árangri.
Við óskum Maríu til hamingju með samningin og hlökkum til að sjá hana áfram í Tindastólstreyjunni á komandi tímabili.“
Spurður um nýja markmanninn Amber Michel segir Guðni hana hafa vitað af Jackie, sem leikur með Stólum og ber Tindastól og Sauðárkrók vel söguna, en þær léku saman í háskólaboltanum í BNA. „Hún hefur spilað á sterku leveli í division 1 í háskólaboltanum og var meðal annars kosinn markmaður ársins í vesturdeildinni. Þrátt fyrir áhuga frá NWSL atvinnumannadeildinni ákvað hún að stökkva á ævintýrið á Íslandi,“ segir Guðni.
Feykir sagði frá því fyrir skömmu að Guðni hefði óskað eftir því við stjórn knattspyrnudeildar að fá Jón Stefán Jónsson í þjálfarateymið á ný og hefur honum orðið að ósk sinni. „Jónsi er reyndur þjálfari með UEFA A gráðu og UEFA pro youth gráðu. Við höfum alltaf litið á okkur sem teymi og unnið þannig. Við verðum því báðir aðalþjálfarar.“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.