Meistaraflokkur kvenna keppir við Hauka í Síkinu á morgun kl. 14 í Geysisbikarnum
Stelpurnar í Meistaraflokki kvenna í körfuboltanum þurfa allan þann stuðning sem völ er á á morgun þegar þær mæta Haukum í Síkinu kl. 14:00. Lið Hauka, er eins og staðan er í dag, í 5. sæti í Dominos-deildinni og verður því gaman að sjá hvar stelpurnar okkar standa í þessum leik en þær eru á toppi 1. deildarinnar með 11 leikna leiki og 16 stig. Þær eru allar sem ein búnar að standa sig einstaklega vel í vetur undir stjórn Árna Eggerts og hvetjum við alla til að mæta og styðja stelpurnar til sigurs. Á meðan á leiknum stendur verður boðið upp á vöffluhlaðborð þar sem fólk getur borðað á sig gat af vöfflum og borgar aðeins 1000 kr. á mann fyrir.
Feykir hafði samband við Árna Eggert, þjálfara Tindastóls, og spurði hann út í leikinn.
Hvernig leggst leikurinn við Hauka í þig? „Leikurinn við Hauka leggst vel í okkur, við erum spennt að fá að bera okkur saman við eitt besta lið landsins og sjá hvar við stöndum. Haukarnir eru með mjög jafnt lið með mikið af góðum leikmönnum sem verður gaman fyrir okkur að fá að kljást við. Þær voru að fá til sín nýjan erlendan leikmann sem hefur byrjað vel í fyrstu leikjunum, svo eru þarna þrjár sem voru að spila í síðasta landsliðsverkefni fyrir Íslands hönd. Við erum spennt, því stærra sem verkefnið er því betur höfum við vanalega spilað. Hvet því alla til að mæta á laugardaginn og hjálpa okkur að gera ennþá betur.“
Hvernig er staðan á mannskapnum fyrir leikinn? „Fyrirliðinn okkar hún Rakel Rós er ennþá frá vegna meiðsla en annars eru allar aðrar tilbúnar í leikinn.“
Ertu sáttur við gengi Tindastóls í 1. deildinni í vetur? „Sem stendur erum við efst í deildinni, búin að gera betur en í fyrra og deildin ekki hálfnuð. Það er erfitt að vera ósáttur við það en það er ærið verkefni framundan að halda okkar stöðu. Ég er samt ánægðastur með hvað liðið hefur tekið mínum hugmyndum og aðferðum vel og hvað við erum byrjuð að vaxa vel saman. Ég er að sjá miklar framfarir hjá bæði einstaklingum og liðinu. Það gleður mig meira en árangur á stöðutöflunni því það þýðir að við erum að leggja okkur fram í því sem við tökum okkur fyrir hendur. Það endurspeglast síðan í stöðu okkar í deildinni. Við leggjum okkur fram við að vera duglegust,“ segir Árni Eggert að lokum.
Stuðningsmenn Tindastóls eru hvattir til að fjölmenna á báða leikina og styðja lið Tindastóls alla leið!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.