Meiðsli lykilmanna hafa sett strik í reikning Stólanna
Það er stórleikur í Síkinu í kvöld þegar heitasta liðið í Dominos-deildinni, Stjarnan úr Garðabæ, mætir til leiks gegn Stólunum. Lið Stjörnunnar hefur ekki tapað leik á árinu og hefur verið að vinna flesta andstæðinga sína án verulegra vandkvæða en á sama tíma hefur Tindastólsvélin hikstað svo vægt sé til orða tekið. Feykir setti sig í samband við aðstoðarþjálfara Tindastóls, Helga Margeirsson, og lagði fyrir hann nokkrar spurningar.
Nú hefur lið Tindastóls ekki náð að sýna sínar bestu hliðar á nýju ári. Hvað hrjáir Stólana okkar? „Liðið var að spila rosalega flottan körfubolta fyrir áramót, gott flæði í leik liðsins, áræðni og ákefð á báðum endum vallarins,“ segir Helgi.
„Liðið missir svo ákveðið jafnvægi í sínum leik í byrjun árs og eru nokkrar ástæður fyrir því. Fyrst má nefna að Pétur Rúnar Birgisson aðal-leikstjórnandi liðsins og sá leikmaður sem hefur spilað flestar mínútur í leikjum liðsins síðustu tímabil byrjar árið á meiðslalistanum. Aðrir leikmenn stigu upp og gerðu vel en það er erfitt fyrir öll lið að leika án síns aðal-leikstjórnanda þó ekkert annað sé að hrjá liðið á þeim tíma.
Síðustu 5-6 leikina fyrir áramót spilar liðið með ameríska leikmanninn PJ sem okkar stóra mann inní teignum og small hann vel inní liðið og hans leikstíll, PJ kemur svo ekki eftir áramót og liðið þarf að endurstilla sig á stuttum tíma til að spila með Urald King sem stóran mann liðsins en hann hafði spilað með liðinu fyrstu 5-6 leiki tímabilsins og valinn besti leikmaður fyrri umferðar deildarinnar. Urald King meiðir sig svo um miðjan fyrsta leik eftir áramót og liðið þá án aðal-leikstjórnanda og stóra mannsins í teignum. Þessar miklu breytingar á stuttum tíma myndu setja leik flestra körfuboltaliða í ójafnvægi.“
Er eitthvað sem hefur komið á óvart í Dominos-deildinni í vetur? „Maður bjóst við að það kæmu fleiri atvinnumenn í deildina og hún þar af leiðandi styrkjast frá því í fyrra en ég held að enginn hafi séð fyrir þessa þróun sem hefur orðið á deildinni í vetur og þessu magni af leikmönnum sem hafa komið inní deildina. Þetta er vonandi ekki það sem koma skal og vil ég meina að þetta eigi eftir að leita jafnvægis. Það er gaman að sjá að nánast öll liðin eru að vinna hvert annað sem gefur deildinni ákveðinn sjarma og heldur öllum á tánum.“
Hvernig leggst leikurinn gegn Stjörnunni í Tindastólsmenn? „Leikurinn leggst vel í mig, við höfum verið að vinna mikið í okkar leikskipulagi á báðum endum vallarins til að einfalda leik okkar en á móti auka ákefðina í okkar aðgerðum það vonandi skilar okkur góðum úrslitum í síðustu leikjum tímabilsins og tilbúnum í úrslitakeppnina í okkar besta formi.
Stjarnan er með gríðarlega sterkt lið, gott jafnvægi er í þeirra liði og mikið sjálfstraust í þeirra leik. Ætli þetta lið sé ekki næst því að vera fyrsta atvinnumannalið Íslands í körfubolta.“
Einhver skilaboð til stuðningsmanna? „Ég vil hvetja bestu stuðningsmenn landsins til að fjölmenna á leikinn í kvöld og sýna með hvatningu og fjöri afhverju þeir eru valdir bestu stuðningsmenn landsins aftur og aftur
Takið með ykkur vini/fjölskyldu. Þeir fá bónusstig sem koma með nýliða á leikinn ;) og allir að fá sér hamborgara hjá Grillmeisturunum fyrir leik. Hlakka til að sjá ykkur öll í Síkinu í kvöld, Áfram Tindastóll, alltaf, alls staðar!!!“
Það er því ekki annað í stöðunni en að mæta í Síkið í kvöld með gleðina að vopni. Leikurinn hefst kl. 20:15 og fyrir þá sem ekki eiga heimangengt skal bent á að leikurinn er sýndur í þráðbbeinni á Stöð2Sport.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.