María Finnbogadóttir sigraði á ungverska meistaramótinu
Skíðakonan skagfirska, María Finnbogadóttir, A-landsliðskona í alpagreinum, gerði það gott í gær þegar hún sigraði í svigi á ungverska meistaramótinu fyrir 16-20 ára keppendur. Mótið er haldið í St. Lambrecht í Austurríki.
María var með besta tímann í fyrri ferðinni og annan besta í seinni ferðinni. Að lokum sigraði hún með 52/100 úr sekúndu og er þetta fyrsti sigur María á alþjóðlegu FIS móti á erlendri grundu.
Í viðtali við RÚV segir María að tilfinningin eftir að hún vissi að hún myndi vinna hafi verið mjög góð. „Fyrsta ferðin var mjög góð en í seinni ferðinni gerði ég stór mistök og rétt svo náði að halda mer inni á brautinni, og ég hélt að þetta myndi ekki duga til en það gerði það," segir hún.
María er meðal þeirra sterkustu á heimslistanum af þátttakendum í mótinu og var því bjartsýn á góðan árangur í mótinu. „Ég fór í þetta til að vinna þetta og hafði fulla trú á því," segir hún.
María keppir í stórsvigi á FIS-CIT móti í Reiteralm í Austurríki um næstu helgi.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.