Lið Kormáks/Hvatar endaði á toppnum

Lið Kormáks/Hvatar. MYND AF NETINU
Lið Kormáks/Hvatar. MYND AF NETINU

Síðastu leikirnir í riðlakeppni 4. deildar fóru fram í gær og á Blönduósvelli tók lið Kormáks/Hvatar á móti stríðsmönnum Stokkseyrar. Ljóst var fyrir leik að heimamenn voru þegar búnir að tryggja sér sæti í úrslitakeppni 4. deildar en með sigri gátu þeir tryggt sér efsta sætið í B-riðli og þá kannski auðveldari mótherja í átta liða úrslitunum.

Fyrsta mark leiksins gerðu heimamenn á 44. mínútu en þar var Hilmar Kára á ferðinni. Ingvi Rafn bætti við marki í upphafi síðari háflfleiks og á 65. mínútu bætti Hilmar við öðru marki sínu í leiknum og allt í lukkunnar velstandi hjá Húnvetningum. Fjórum mínútum síðar var Stokkseyringnum Rúnari Birgissyni vísað af velli en það virtist bara hleypa óvæntum krafti í gestina. Fyrst minnkaði Örvar Hugason muninn með marki á 74. mínútum og fjórum mínútum síðar hleyptu Stokkseyringar spennu í leikinn þegar Sigurður Sigurvinsson skoraði annað mark þeirra. Staðan 3-2 og um stundarfjórðungur eftir af leiknum. Oliver Torres tryggði liði Kormáks/Hvatar toppsæti riðilsins með tveimur mörkum í lokin og lokatölur 5-2.

Kormákur/Hvöt endaði því með 28 stig af 36 mögulegum, liðið vann níu leiki, gerði eitt jafntefli en tapaði tveimur. Með þeim í úrslit fara Rangæingar í KFR sem voru með 27 stig.

Mótherjar Húnvetninga í úrslitakeppninni er lið KÁ sem er væntanlega einskonar b-lið Hauka í Hafnarfirði. Fyrr leikur liðanna í átta liða úrslitum fer fram á Ásvöllum nk. laugardag og hefst kl. 13:00. Seinni leikurinn verður á Blönduósvelli miðvikudaginn 23. september kl. 16:15.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir