Lið Kormáks/Hvatar á eldi í Húnaþingi
Eftir rólega byrjun í 4. deildinni í sumar hefur lið Húnvetninga, Kormákur/Hvöt, gert gott mót að undanförnu og unnið fjóra leiki í röð og sitja nú á toppi B-riðils. Um helgina léku strákarnir á Hvammstangavelli við sunnlendingana í KFR sem voru fyrir leikinn í öðru sæti riðilsins, sæti ofar en K/H. Það var því ekki ónýtt að leggja gestina að velli en lokatölur voru 2-1.
Helgina áður hafði Kormákur/Hvöt sigrað lið Bjarnarins 2-0 á Blönduósi þar sem Hilmar Þór Kárason og Oliver Torres gerðu mark í sitt hvorum hálfleiknum.
Á Hvammstangavelli sl. laugardag voru það gestirnir sem náðu forystunni strax á 6. mínútu en markið gerði Jou Quer Calzada og lið SFR hafði forystuna allt þar til Oliver Torres jafnaði leikinn á 71. mínútu. Spánverjinn gerði síðan sigurmarkið fjórum mínútum síðar og mikilvægum sigri landað á Eldi í Húnaþingi.
Baráttan um sæti í úrslitakeppninni virðist ætla að verða hörð í B-riðlinum en fimm af sjö liðum riðilsins eru í einum haug á toppnum en lið Álafoss og Snæfells sitja á botninum með eitt stig hvort.
Nett viðtal verður á Feykir.is á morgun þar sem Bjarki Már Árnason, þjálfari Kormáks/Hvatar, svarar örfáum spurningum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.