Lið Álftaness kom, sá en var langt frá sigri
Tindastóll og Álftanes mættust í Síkinu í kvöld í 16 liða úrslitum Geysisbikars karla. Lið gestanna er í 1. deildinni og þeir reyndust ekki mikil fyrirstaða, Stólarnir náðu ágætri forystu undir lok fyrsta leikhluta og voru 54-28 í hálfleik. Heldur hægðist á fjörinu í síðari hálfleik en lið Tindastóls vann alla leikhlutana og leikinn því örugglega 91-55.
Leikurinn var fjörugur og ágæt skemmtun fyrir áhorfendur og það gladdi augað að allir leikmenn Tindastóls komust á blað. Það var Sinisa Bilic sem fór fyrir sínum mönnum í fyrsta leikhluta en þá gerði kappinn 15 stig. Álfnesingar voru ansi sprækir fyrstu mínútur leiksins og héldu ágætlega í við heimamenn sem voru þó að spila af krafti. Staðan var 14-12 um miðjan fyrsta leikhluta en þá setti Bilic í fluggírinn og skoraði nánast rest fyrir Stólana, utan að Hannes Ingi setti þrist. Staðan 28-17 að loknum fyrsta leikhluta og Hannes bætti við tveimur þristum í upphafi annars. Gestirnir héldu í við Stólana fram í miðjan leikhlutann, staðan 38-28, en það sem eftir lifði fram að leikhléi gerði lið Tindastóls 16 stig en gestirnir ekkert. Hannes setti niður fjórða þristinn sinn rétt fyrir hlé og staðan 54-28.
Álftnesingar komu baráttuglaðir til leiks í síðari hálfleik en snemma í hálfleiknum fór Helgi Rafn illa með knáann kana gestanna, Samuel Prescott Jr. Fyrst stal hann boltanum af honum við miðlínu, komst upp að körfunni þar sem Prescott ætlaði að verja íleggjuna en var feikaður langt norður í bæ og síðan lagði Helgi boltann snyrtilega í. Þetta varð reyndar til þess að Prescott fór mikinn í sókn gestanna næstu mínútur og gerði heil 15 lagleg stig í þriðja leikhluta en alls gerði hann 20 stig í leiknum. Þessi stuðkafli dugði þó skammt og Stólarnir yfir, 75-46, fyrir lokafjórðunginn. Friðrik hóf fjórða leikhlutann með tveimur þristum en á milli þeirra setti Helgi einnig niður silkimjúkan þrist við mikil fagnaðarlæti í Síkinu. Síðustu mínúturnar fengu síðan óreyndari spámenn að spreyta sig og fengu ungu mennirnir; Eyþór Lár Bárðarson, Örvar Freyr Harðarson og Hlynur Freyr Einarsson, nokkrar mínútur til að koma sér á blað og þeir brugðust að sjálfsögðu ekki stuðningsliði sínu sem fagnaði körfum þeirra af fítonskrafti.
Þægilegur 36 stiga sigur staðreynd og Stólarnir komnir í 8 liða úrslitin í Geysisbikar karla. Lið Tindastóls átti fínan leik og lögðu leikmenn sig vel fram. Bilic var stigahæstur með 17 stig, Hannes var með 14, Brodnik 12 og Helgi 11 en hann tók auk þess tíu fráköst. Simmons gerði átta stig líkt og Viðar sem hirti auk þess sex fráköst og þar af fjögur í sókninni, Lið Tindastóls hirti ríflega 20 fleiri fráköst en gestirnir og tapaði 12 boltum gegn 24 gestanna og munar um minna.
Kvennalið Tindastóls spilar í Geysisbikarnum í Síkinu á laugardaginn kl. 14:00 en þá kemur úrvalsdeildarlið Hauka í heimsókn. Fjölmennum og hvetjum stelpurnar til dáða. Áfram Tindastóll!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.